Ófærð og vonskuveður

Veðurstofa Íslands

Allhvöss eða hvöss austanátt verður fyrir norðan í dag með snjókomu, skafrenningi og lélegum akstursskilyrðum. Bætir í vindinn í kvöld og er spáð hvassviðri eða stormi á morgun með snjókomu, samkvæmt athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Hvassast verður norðan- og vestan til en mest verður úrkoman á Norðurlandi. Loka þurfti fjölmörgum vegum síðdegis í gær og gærkvöldi og eru margir þeirra enn lokaðir. Ekki er ráðlegt að leggja í ferðalög nema kynna sér aðstæður á vef Vegagerðarinnar og Veðurstofu Íslands.

Vegagerðin

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra þá tókst að bjarga öllum af Víkurskarði á tólfta tímanum í gærkvöldi en þeir sem höfðu setið lengst fastir höfðu beðið í bílum sínum í nokkrar klukkustundir. Á annan tug bíla hafði setið þar fastur í nokkurn tíma áður en björgunarstörfum lauk. Víkurskarð er enn lokað og eins Ólafsfjarðarvegur en þar féll snjóflóð á veginn skammt frá Múlagöngum.

Gul viðvörun er í gildi fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra og eystra, Austurland að Glettingi, Austfirði og Suðausturland eða fyrir nánast allt land.

Töluverð hætta er á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum, utanverðum Tröllaskaga og á Austfjörðum. 

Veðurstofa Íslands

Til fjalla á norðanverðum Vestfjörðum er mikill snjór sem kom í síðustu viku ofan á gamlan stöðugan snjó. Nýi snjórinn er víða um 50-100 cm djúpur. Snjógryfjur frá síðustu viku benda til ágætis stöðugleika, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Smáspýjur féllu um helgina en ekki hafa borist fréttir af nýlegum flekaflóðum. Spáð er vaxandi austan og síðar norðaustan átt með snjókomu til fjalla næstu daga og er fólk hvatt til að fara með gát þegar ferðast er um brattar snævi þaktar hlíðar. Mikill nýr snjór er í fjöllum og ef flekaflóð fara af stað af mannavöldum má búast við meðalstórum flóðum.

Veðurstofa Íslands

Til fjalla á utanverðum Tröllaskaga er talsvert af nýjum snjó  sem kom í síðustu viku. Snjóflóð féllu nokkuð víða um helgina, m.a. á Siglufjarðarveg, í Karlsárfjalli, Karlsárdal og Leyningssúlum. Snjóflóð féll einnig undan vélsleða á Kaldbak á sunnudag.

Snjógryfjur frá því um helgina benda þó til að nýi snjórinn sé að styrkjast en spáð er vaxandi austan- og síðar norðaustanátt með snjókomu til fjalla næstu daga og er fólk hvatt til að fara með gát þegar ferðast er um brattar snævi þaktar hlíðar. Mikill nýr snjór er í fjöllum og ef flekaflóð fara af stað af mannavöldum má búast við meðalstórum flóðum.

Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert