Spá 40 metrum á sekúndu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is//Jónas Erlendsson

Ekkert ferðaveður er á Suðausturlandi en þar er spáð allt að 40 metrum á sekúndu fram undir kvöld. Vegirnir um Öxnadalsheiði, Víkurskarð, Mývatns- og Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði eru lokaðir vegna veðurs.

Á vef Vegagerðarinnar er talað um „byljóttan“ vind og „harða hnúta“, einkum í Öræfum, við Hornafjörð og í Lóni, og að óveðrið verði í hámarki um og fyrir hádegi. Hviður verða 30-35 m/s á Kjalarnesi þar til undir kvöld. Norðaustan- og austanlands fer að draga úr snjókomunni upp úr hádegi en áfram verður hvasst fram á kvöld.

Á Suður- og Suðvesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum en snjóþekja eða krapi á nokkrum leiðum. Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er víða á Vesturlandi. Óveður er undir Hafnarfjalli, á Kjalarnesi og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þungfært er á Fellsströnd og Skarðsströnd en ófært er á Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum er víðast hvar hálka, snjóþekja og éljagangur. Þæfingur er á Kleifaheiði, Hálfdán, Mikladal, Klettshálsi og Gemlufallsheiði. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði en ófært á Þröskuldum.

Á Norðurlandi er víða hálka, hálkublettir og snjóþekja og víða er snjókoma, skafrenningur eða él. Flughálka er milli Fljóta og Hofsóss, þæfingur er á Þverárfjalli, inn Öxnadal, Hörgárdal og í Svarfaðardal. Þungfært er í Ljósavatnsskarði. Vegirnir um Öxnadalsheiði, Víkurskarði, Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru lokaðir. Ófært er um Dalsmynni og Hólasand.

Snjóþekja, þæfingur og snjókoma er víða á Austurlandi. Þæfingur er í Jökuldal, Fljótsdal og á Héraði. Þungfært er í Hróarstungu og í Skriðdal. Ófært er á Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi. Hálka eða hálkublettir er á Suðausturlandi og hvasst er orðið í Öræfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert