Stór áfangi að leiðrétta „rangláta dóma“

Sex­menn­ing­arn­ir sem voru sak­felld­ir. Efri röð f.v.: Sæv­ar Ciesi­elski, Erla …
Sex­menn­ing­arn­ir sem voru sak­felld­ir. Efri röð f.v.: Sæv­ar Ciesi­elski, Erla Bolla­dótt­ir og Kristján Viðar Viðars­son. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifs­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Guðjón Skarp­héðins­son. mbl.is

Lögmenn Al­berts Kla­hn Skafta­sonar, Kristjáns Viðars Júlí­us­sonar og Tryggva Rúnars Leifssonar eru allir ánægðir með kröfu setts saksóknara í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu að sakborningar og skjólstæðingar þeirra í málinu verði sýknaðir. 

„Það var í sjálfu sér ekki við neinu öðru að búast eftir að öll sönnunargögnin komu í ljós,“ segir Guðjón Ólaf­ur Jóns­son, lögmaður Alberts. Hann hlaut eins árs fangelsisdóm fyrir Hæstarétti en hann var ákærður fyr­ir að tálma rann­sókn

Guðjón mun taka heilshugar undir kröfu ríkissaksóknara en bendir á að hann eigi eftir að fara yfir greinargerðina sem Davíð Þór Björg­vins­son, full­trúi ákæru­valds­ins í end­urupp­töku Guðmund­ar- og Geirfinns­máls­ins og sett­ur rík­is­sak­sókn­ari, skilaði til Hæstaréttar í dag. Hún er í heildina tæpar 80 blaðsíður. 

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristjáns Viðars, tekur í sama streng og lýsir yfir ánægju með kröfu setts saksóknara í málinu fyrir hönd skjólstæðings síns. Kristján Viðar var ákærður fyr­ir að bana Geirfinni og hlaut sex­tán ára fang­els­is­dóm.

„Ég lít svo á að þó að það verði að afgreiða þetta með réttu formi og á réttan hátt þá er réttinum ekki einu sinni heimilt að gera annað en það sem saksóknarinn krefst,“ segir Jón Steinar og bætir við: „Þetta er stór áfangi í því að leiðrétta þessa ranglátu dóma sem gengu á þessum tíma.

Jón Magnússon, lögmaður Tryggva Rúnars, segir að sýknukrafan komi ekki á óvart. „Einhvern tímann hlutu menn nú að sjá ljósið í sambandi við þetta,“ segir Jón, en að hans mati er málið í heild sinni eitt það ljótasta í íslenskri réttarsögu.

Hann segir að æskilegt hefði verið að brjóta málið upp fyrir „mörgum áratugum síðan“ en því miður hafi það ekki gerst.

„Það er meðal annars vegna þess að það hafa ýmsir aðilar átt heiður að verja, sem jafnvel gegndu háum stöðum í réttarkerfinu,“ segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert