Andlát: Jóhannes Sigmundsson í Syðra-Langholti

Jóhannes Sigmundsson.
Jóhannes Sigmundsson.

Jóhannes Sigmundsson, fyrrverandi bóndi og kennari í Syðra-Langholti 3 í Hrunamannahreppi, er látinn, 86 ára að aldri.

Jóhannes var fæddur 18. nóvember 1931 í Syðra-Langholti, sonur Sigmundar Sigurðssonar, bónda og oddvita þar, og konu hans, Önnu Jóhannesdóttur húsfreyju. Jóhannes bjó alla tíð í Syðra-Langholti, stofnaði nýbýlið Syðra-Langholt 3 og stundaði þar búskap og var með ferðaþjónustu.

Jóhannes stundaði nám í Héraðsskólanum að Laugarvatni og varð stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1954. Hann var kennari við Flúðaskóla í 33 ár.

Jóhannes Sigmundsson stundaði íþróttir alla tíð og tók þátt í félagsmálum sveitar sinnar og héraðs frá unga aldri. Meðal félagsmálastarfa má nefna að hann var í stjórn Ungmennafélags Hrunamanna, í varastjórn Ungmennafélags Íslands og formaður Héraðssambandsins Skarphéðins í tíu ár. Hann starfaði áfram í nefndum og að öðrum félagsstörfum fyrir HSK og var kjörinn heiðursformaður sambandsins á árinu 2011. Hann var einnig formaður Kennarafélags Suðurlands og Ferðamálasamtaka Suðurlands og sat í Ferðamálaráði Íslands fyrir ferðaþjónustuna á Suðurlandi.

Hann safnaði sögum af fólki í uppsveitum Árnessýslu og gaf út í Gamansögum úr Árnesþingi á árinu 2014.

Jóhannes kynntist Hrafnhildi Svövu Jónsdóttur frá Sauðárkróki á Laugarvatnsárunum og giftu þau sig á árinu 1954. Hún lifir mann sinn. Þau eignuðust sjö börn, Hilmar, Sigmund, Sigurbjörgu, Snorra Frey, Gunnar Þór, Önnu Láru og Ásdísi Erlu.

Jóhannes lést á dvalarheimilinu Ási í Hveragerði síðastliðinn mánudag. Útförin fer fram frá Skálholtskirkju föstudaginn 2. mars klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert