Hefur ekki skipað nýja sendiherra

mbl.is/Hjörtur

Frá því Guðlaugur Þór Þórðarson tók við embætti utanríkisráðherra fyrir rúmu ári síðan hafa engir nýir sendiherrar verið skipaðir. Þetta kemur fram í svari Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, við fyrirspurn frá mbl.is vegna ákvörðunar um að loka tveimur sendiráðum Íslands. Annars vegar í Austurríki og hins vegar í Mósambík.

Sveinn bætir því við að raunar hafi sendiherrum fækkað frá árinu 2016 þar sem þrír hafi látið af embætti á þeim tíma. Gréta Gunnarsdóttir, sem áður var sendiherra Íslands í Vín, hefur hafið störf hjá Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODHIR) í Varsjá og María Erla Marelsdóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu, gegnir áfram stöðu sendiherra Íslands gagnvart Mósambík með aðsetur á Íslandi segir ennfremur í svari Sveins.

„Vilhjálmur Wiium sendiráðunautur var staðgengill sendiherra í Mapútó [í Mósambík] þar til í nóvember síðastliðnum en hann sinnir nú verkefnum á sviði þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu. Rétt er að halda því til haga að þótt sendiráðinu í Vín verði lokað verður áfram fastafulltrúi hjá ÖSE og staðarráðinn starfsmaður í borginni,“ segir Sveinn ennfremur.

Sveinn segir aðspurður að ekki sé ráðgert að loka fleiri sendiráðum að sinni enda séu íslenskar sendiskrifstofur nú starfsræktar í helstu viðskiptalöndum og markaðssvæðum og fastanefndir ennfremur við mikilvægustu alþjóðastofnanir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert