Færri og betri uppboð á myndlist

Jó­hann Ágúst Han­sen, fram­kvæmda­stjóri og upp­boðsstjóri hjá Galle­rí Fold.
Jó­hann Ágúst Han­sen, fram­kvæmda­stjóri og upp­boðsstjóri hjá Galle­rí Fold. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum ánægð með þetta uppboð en á því er fjöldi góðra verka eftir þekkta listamenn,“ segir Jó­hann Ágúst Han­sen, fram­kvæmda­stjóri og upp­boðsstjóri hjá Galle­rí Fold, um fyrsta uppboð ársins hjá galleríinu í kvöld kl. 18. 

Þetta er í fyrsta skipti í yfir áratug þar sem uppboðin á myndlist verða færri í ár hjá Gallerí Fold. Það verða tvö uppboð á vorönn, hið fyrra í kvöld en næsta í maí, og tvö á haustönn. Á síðustu árum hafa þau verið um sex til átta á ári.

Markmiðið er að safna í betra uppboð og fá betri verk inn. „Það hefur verið erfitt að fá inn hágæðaverk. Það tilheyrir góðærinu sem eru núna. Það er ekki pressa á fólki að selja núna,“ segir Jóhann. Flest verkin á uppboðinu eru eftir „gömlu kanónurnar“ en færri verk eftir yngri listamenn eru boðin upp eins og gjarnan er. 

Dýrasta og stærsta verkið á uppboðinu er verk eftir Þorvald Skúlason. Þetta er í þriðja sinn á 15 ára tímabili þar sem verk eftir hann í þessum gæðaflokki er boðið upp. Ásett verð er 2,8 - 3,2 milljónir króna. 

Teikningar eftir Alfreð Flóka verða einnig boðnar upp en slík verk rata ekki oft inn á uppboð. Þá verða boðin upp verk eftir Kjarval, Ásgrím Jónsson, Karólínu Lárusdóttir, Eirík Smith svo fáeinir listamenn séu nefndir.

Á síðustu tveimur árum hefur áhugi á myndlist breyst. „Abstraktið er að taka yfir og minni áhugi er á landslagi. Tíðarandi, tíska og smekkur breytist milli kynslóða,“ segir Jóhann. Spurður hvort þessi breyting tengist efnahagsástandinu telur hann ekki svo vera heldur hafi þetta meira með tískuna að gera. „Landslagið kemur aftur því allt fer í hring eins og við sjáum til dæmis að Don Cano-gallarnir eru að koma aftur,“ segir hann og brosir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert