Hafa áhyggjur af þröngum skilyrðum

Rauði krossinn telur að efni reglugerðarinnar gangi gegn almennri túlkun …
Rauði krossinn telur að efni reglugerðarinnar gangi gegn almennri túlkun og skýringu á lögunum. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Rauði krossinn lýsir yfir áhyggjum sínum af gildistöku nýrrar reglugerðar sem þrengir að túlkun á því hvaða umsækjendum um alþjóðlega vernd  séu taldir vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Rauða krossinum.

Telur Rauði krossinn að efni reglugerðarinnar gangi að miklu leyti gegn almennri túlkun og skýringu á lögum um útlendinga, markmiðum þeirra og athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að núgildandi lögum um útlendinga. Þá feli ákvæði reglugerðarinnar í sér afturför og skerðingu á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Í greinargerðinni með frumvarpinu sem lagt var fram í kjölfar umræðu fyrirhugaða endursendingu á afgönskum feðginum til Þýskalands, var áréttaður sá vilji löggjafans að ávallt skuli taka til efnislegar meðferðar umsóknir um alþjóðlega vernd ef umsækjandi er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Virðist vera sem þeim vilja löggjafans sé nú snúið við með nýrri reglugerð, að segir í yfirlýsingunni.

Þar er gerð athugasemd við þröng skilyrði sem sett eru fyrir því að taka megi umsókn til efnismeðferðar vegna heilsufarsástæðna. Bent er á að hingað til hafi verið lagt einstaklingsbundið mat á heilsu umsækjenda og hvaða áhrif endursending hefur á heilsu þeirra, óháð því hvort heilbrigðiskerfi í viðtökuríki er í stakk búið til að veita viðkomandi fullnægjandi meðferð. Reglugerðin tekur hins vegar fram í dæmaskyni að þeir einstaklingar sem geti fallið þarna undir séu umsækjendur sem glíma við mikil og alvarleg veikindi, gerð er krafa um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og að meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

„Í kafla reglugerðarinnar sem fjallar um sérviðmið er varðar börn og ungmenni er tekið fram að þau viðmið sem komi fram í reglugerðinni eigi jafnframt við um börn. Þannig virðist gert ráð fyrir að börn sem eru haldin sjúkdómi sem ekki nær þeim alvarleikaþröskuldi að teljast skyndilegur og lífshættulegur skuli endursend til viðtökuríkis, jafnvel þó að foreldrar barnsins muni þurfa að greiða fyrir meðferð við sjúkdómnum í viðtökuríki, án þess að frekara mat fari fram á einstaklingsbundnum aðstæðum barnsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert