Komist aftur út á vinnumarkaðinn

Páll Magnússon alþingismaður.
Páll Magnússon alþingismaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við getum ekki horft upp á ungt fólk, þúsundum saman, stimplast út af vinnumarkaði, kannski fyrir lífstíð, ef við getum gert eitthvað í því. Það er rándýrt fyrir þjóðfélagið en það er auðvitað enn dýrkeyptara fyrir það fólk sjálft sem lendir í þessu.“

Þetta sagði Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann gerði það að umtalsefni að þeir sem metnir hafi verið með 75% örorkumat eða meira væru orðnir 20 þúsund talsins.

Vísaði hann í upplýsingar sem komið hefðu fram á fundi í fjárlaganefnd Alþingis fyrir skömmu síðan. Vakti hann enn fremur athygli á því að árið 2016 hafi nýgengi örorku í fyrsta skipti verið meiri en náttúruleg fjölgun á vinnumarkaðinum.

Páll sagði það mikið áhyggjuefni að fjölgunin væri mest annars vegar á meðal kvenna á aldrinum 30–40 ára og hins vegar hjá ungum körlum á aldrinum 20–30 ára. Algengasta ástæðan hjá körlunum væru geðraskanir en stoðkerfissjúkdómar hjá konunum.

Sagðist Páll hafa af þessu vaxandi áhyggjur og benti á að heildarfjöldi þeirra sem væru á vinnumarkaði væri um 190 þúsund manns. „Áhersla okkar á að færast frá því sem nú er yfir í það að aðstoða fólk í endurhæfingu til að það komist aftur út á vinnumarkaðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert