100 þúsund manns borða í opinberum mötuneytum

Margir borða í mötuneytum sem ríki og sveitarfélög reka.
Margir borða í mötuneytum sem ríki og sveitarfélög reka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætla má að hátt í 150 þúsund manns eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra noti fríðindin borða um 100 þúsund manns í opinberum mötuneytum.

Þessar upplýsingar koma fram í greinargerð með tillögu Þórunnar Egilsdóttur og þriggja annarra þingkvenna Framsóknarflokksins til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru.

Samkvæmt greinargerðinni er átt við mötuneyti á vegum stofnana ríkis og sveitarfélaga því upp eru taldir nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Annars gengur tillagan út á það að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna frumvarp um að ávallt skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru.

Eitt af hliðarmarkmiðum tillögunnar, að því er fram kom í framsöguræðu flutningsmanns, er að styrkja innlenda matvælaframleiðslu. Ekki liggur fyrir hversu stór hluti hráefnis matar í mötuneytum ráðuneyta er innlendur, að því er fram kemur í skriflegum svörum tveggja ráðuneyta við fyrirspurn Þórarins Inga Péturssonar, varaþingmanns Framsóknarflokksins. Utanríkisráðuneytið segir þó í sínu svari að ávallt sé leitast við að nota það íslenska hráefni sem í boði er hverju sinni. Þannig sé allur fiskur íslenskur, megnið af kjöti og stærstur hluti af grænmetinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert