Óbrotnir eftir fallið

Mennirnir féllu fram af þessum klettum.
Mennirnir féllu fram af þessum klettum. mbl.is/Jón G. Guðjónsson

Tveir menn sem lentu í vanda við Stóru-Ávík í Árneshreppi á níunda tímanum í morgun fóru fram á kletta í svonefndu Túnnesi rétt við bæinn. Annar mannanna fór of framarlega og féll fram af klettunum en stoppaði á klettasyllu um metra frá sjónum. Félagi mannsins reyndi að koma honum til staðar en féll einnig fram af syllunni. 

Eins og greint var frá í morgun fóru björgunarsveitarmenn á staðinn auk björgunarskips frá Skagaströnd. Upphaflega var talað um að mennirnir hefðu fallið í sjóinn. 

Fréttaritari mbl.is í Árneshreppi segir að einn björgunarsveitarmaður hafi verið látinn síga niður til mannanna. Kaðall var bundinn utan um þá og þeir voru síðan dregnir upp einn í einu. Þetta gekk vel og vonum framar að sögn fréttaritarans.

Mennirnir voru orðnir mjög kaldir og var þeim komið í hús í Stóru-Ávík þar sem hlúð var að þeim. Mennirnir voru óbrotnir eftir fallið.

Sjúkrabíll kom frá Hólmavík ásamt lækni og einnig kom lögreglan á staðinn. Einnig var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út en henni var síðan snúið við, þegar vitað var að heimamönnum tókst að bjarga mönnunum upp.

Sjúkrabíll og læknir komu ásamt lögreglu.
Sjúkrabíll og læknir komu ásamt lögreglu. mbl.is/Jón G. Guðjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert