Rannsóknin beinist að leigubílnum

Sindri Þór Stefánsson.
Sindri Þór Stefánsson.

Rannsókn lögreglunnar á flótta Sindra Þórs Stefánssonar frá Sogni og úr landi fyrr í vikunni beinist aðallega að því að hafa uppi á leigubílstjóra sem ók honum út á Keflavíkurflugvöll. Þetta segir Gunnar Schram, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Bifreiðin sem leigubílstjórinn ók er silfurlituð Skoda-skutbifreið. Gunnar segir að verið sé að skoða ábendingar sem lögreglan hafi fengið í þeim efnum. Þess utan sé ekkert nýtt að frétta af málinu. Aðspurður segir hann engar nýjar upplýsingar hafa borist frá erlendum lögregluyfirvöldum en Sindra tókst að komast með flugi til Svíþjóðar.

Rannsókn lögreglunnar beinist fyrir vikið eins og sakir standi fyrst og fremst að flóttanum. „Síðan eru úti þessar handtökuskipanir og við erum áfram í sambandi við sænsk lögregluyfirvöld sem fyrr.“ Aðspurður segir hann að ekkert sé hægt að fullyrða um það hvort Sindri sé enn í Svíþjóð eða hvert hann hafi farið frá Arlanda-flugvelli í Stokkhólmi.

Talið er ljóst að Sindri hafi átt sér vitorðsmenn sem aðstoðað hafi hann á flóttanum. Rannsókn lögreglunnar beinist einnig að því að hafa uppi á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert