Köttur olli rafmagnsleysi á Þorlákshöfn

Köttur komst í spenninn á Þorlákshöfn og olli rafmagnsleysi. Mynd …
Köttur komst í spenninn á Þorlákshöfn og olli rafmagnsleysi. Mynd úr safni. AFP

Köttur olli rafmagnsleysi í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Rafmagn fór af öllum bænum í klukkustund klukkan 21.42 í gærkvöldi.

Stein­unn Þor­steins­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Landsnets, segir köttinn hafa komist í spenninn með þeim afleiðingum að rafmagn sló út. „Hann hefur komist inn og komið við eitthvað sem varð þess valdandi að rafmagni sló út. Því miður lifði hann þetta ekki af,“ segir Steinunn en kveður engar skemmdir hafa orðið á kerfinu við rafmagnsleysið.

Hún segir sér ekki vera kunnugt um að köttur hafi áður slegið út rafmagn hjá Landsneti. Framkvæmdir séu hins vegar nú í gangi við spenninn, sem sé í eigu RARIK, og við þær hafi mögulega skapast aðgengi að honum.

„Það er frekar að við lendum í því að fuglar valdi rafmagnsleysi er þeir fljúgi á línur,“ segir hún. „Það gerist ekki oft, en er þó þekktara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert