Þessi dauðans óvissa

Eva Hauksdóttir veit enn ekki hvað kom fyrir son hennar …
Eva Hauksdóttir veit enn ekki hvað kom fyrir son hennar Hauk en ekkert hefur til hans spurst síðan í rúma tvo mánuði. Ljósmynd/Brian Sweeny

Stríðið endalausa í Sýrlandi virðist óralangt frá Íslandi og er það í hugum margra. Fáir Íslendingar hafa lagt leið sína þangað, enda eitt hættulegasta svæði jarðar um þessar mundir. Því kom það öllum í opna skjöldu að heyra um meint andlát ungs Íslendings þar, en fréttir af því bárust í byrjun mars. Haukur Hilmarsson er talinn hafa fallið í loftárás tyrkneska hersins 24. febrúar, en hann barðist með Kúrdum í Sýrlandi.

Móðir hans, Eva Hauksdóttir, vissi ekki um fyrirætlanir sonar síns að fara til Sýrlands og segir það hafa verið áfall að frétta af honum þar. Þrátt fyrir að hún hafi lengi leitað svara er enn flest á huldu um afdrif Hauks, en ekkert hefur til hans spurst síðan í byrjun febrúar. Eva hefur ekki gefið upp alla von þótt hún búist ekki við að hitta son sinn aftur.

Haukur er enn ófundinn en hann barðist með Kúrdum í …
Haukur er enn ófundinn en hann barðist með Kúrdum í Sýrlandi.


Mjög reið og hneyskluð

Nú eru komnir næstum tveir mánuðir síðan hann hvarf. Er enn von um að hann sé á lífi?
„Á meðan við höfum engar sannanir um að hann sé látinn er auðvitað von. Ég vona að ég muni sjá hann aftur en reikna ekki sérstaklega með því.“


Hvernig er samband ykkar?


„Samband okkar hefur alltaf verið mjög náið og sennilega óvenjunáið. Við höfum verið alveg óskaplega góðir vinir og aldrei hefur borið neinn skugga á þá vináttu. Ég hef aldrei reiðst Hauki fyrr en ég frétti af þessu,“ segir Eva, en hún vissi ekki að Haukur ætlaði til Sýrlands til að taka þátt í vopnuðum átökum.


Varstu þá reið út í hann að hafa farið til Sýrlands?


„Ég var mjög reið yfir því að hann skyldi setja sig í lífshættu án þess að láta mig eða pabba sinn vita, en auðvitað vissi hann að ég hefði gert allt til að stoppa hann. Já, ég var reið, og hneyksluð á honum fyrir að fara þessa leið að því að styðja Kúrda þótt ég hafi fullan skilning á málstaðnum. Ég hef aldrei beinlínis reiðst honum áður, þótt stundum hafi fokið aðeins í mig. Þetta var áfall.“


Veistu hvað það var sem rak hann á þennan stað, af hverju honum fannst hann þurfa að ganga svona langt að taka beinan þátt í stríði?


„Hann útskýrði sjálfur í myndbandi að í Rojava væri eina alvöru lýðræðistilraunin í Miðausturlöndum. Hauk hefur alltaf langað til að taka þátt í einhvers konar byltingu þótt ég hafi nú ekki haldið að hann myndi beita vopnavaldi sjálfur. Þarna er bæði í gangi samfélagsleg bylting og alvöru lýðræðistilraun sem honum fannst ríma við sinn anarkisma. Hann hefur líka ofboðslega andúð á fasisma,“ segir Eva.

Styður ekki för vina Hauks

Nú hefur komið fram að vinir Hauks vilja fara til Sýrlands að leita svara. Er það í bígerð?

„Já, það er í bígerð en ég vona að það verði ekki gert fyrr en það er óhætt. Um daginn mættu nokkrir vinir Hauks á þingpallana og Lárus Páll Birgisson sjúkraliði kom þeim skilaboðum áleiðis að stjórnvöld ættu að greiða fyrir för þeirra til Afrin með því að semja við tyrknesk stjórnvöld um að hleypa þeim inn á svæðið. Það eru fleiri en fjölskyldan sem finnst óbærilegt að fá ekki staðfestingu á því hvort Haukur er lífs eða liðinn.“

Styður þú það að vinir Hauks fari út og leggi sig í hættu?

„Ég vil alls ekki að þeir geri það. Ég ræð því ekki, en ég hef beðið fólk að bíða aðeins og ég trúi því að þau muni bíða,“ segir hún og bætir við: „Mér finnst sjálfsagt að kanna möguleikana og fara á stúfana seinna þegar það er óhætt. Þessi hópur er í sambandi við blaðamenn sem vita hvernig er öruggast að komast inn á svæðið. Hvar eru minnstu líkur á að maður verði skotinn. En mér þykir vænt um vini Hauks og ég vil ekki að fleiri fjölskyldur missi börnin sín eða systkini.“

Tilbúinn að deyja fyrir málstaðinn

Heldurðu að Haukur hafi gert sér grein fyrir því að hann væri að leggja sig í lífshættu?

„Já, já. Þeir eru látnir gera myndbönd sem eru bara birt ef maðurinn fellur. Það er gert til þess að fjölskyldan velkist ekki í vafa um það að menn hafi farið út í þetta sjálfviljugir. Hann gerði sér alveg grein fyrir hættunni.“

Hann er þá í rauninni tilbúinn að deyja fyrir málstaðinn?

„Já.“

Það kemur smá hik á samtalið.

„Já, hann var tilbúinn að deyja til þess að hjálpa fólki sem er að byggja upp lýðræðislegt samfélag til að losna undan ógnarvaldi skelfilegra kúgara. Það þarf einhver að gera það. Maður vill helst ekki að einhver sem maður elskar geri það, heldur einhverjir aðrir.“

Að halda áfram að lifa

Hvernig líður þér í dag?

„Mér líður auðvitað eins og öðru fólki sem er að fara í gegnum sorg,“ segir Eva og segist ganga í gegnum tímabil afneitunar, sorgar og reiði.

„Kannski tekur sorgarferlið lengri tíma þegar maður er í óvissu svona lengi. Við höfum ekki sannanir fyrir því að hann sé látinn og á meðan er mögulegt að hann sé á lífi,“ segir hún.
„En það er fullt af Íslendingum sem hafa aldrei fengið fullvissu um afdrif ástvina sinna og ég er ekkert ein í þessari sorg. Haukur á kærustu, pabba, systkini og fjölda ættingja og vina sem eru í sama limbóinu, og við mætum samúð og skilningi alls staðar.“

Eru einhver næstu skref í þessu máli?

„Við erum komin í hring með að afla upplýsinga og ég hef litla von um að fá staðfestingu á því hvað gerðist. Ef Haukur hefur látist í loftárás á svæði sem er nú undir stjórn Tyrkja er líklegast að líkið verði sett í fjöldagröf og finnist aldrei,“ segir Eva.

„Eina vonin um að við fáum eitthvað á hreint er að þessi hópur fari til Afrin, sem verður vonandi ekki fyrr en farið að róast. En þótt þau fari er ekkert víst að það skili neinum árangri. Þannig að það eru engin skref framundan, nema að vona það besta og halda áfram að lifa.“

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom út í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert