Skaðabætur vegna aðskotahlutar í pizzu

mbl.is/Ófeigur

Veitingastaðurinn Eldofninn í Reykjavík var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að greiða konu 90.880 krónur vegna tjóns sem hún varð fyrir þegar hún snæddi pizzu á staðnum. Konan varð fyrir því að brjóta tönn á „einhvers konar járnkúlu“ um miðjan janúar árið 2016.

Veitingastaðurinn féllst á að greiða upphaflegan tannlæknakostnað konunnar að upphæð 27.490 krónur en þegar frekari kostnaður bættist við vegna brotnu tannarinnar vildi hann ekki fallast á kröfu um að greiða hann líka. Bar veitingarstaðurinn því við að ekki hafi falist viðurkenning á bótaskyldu í upphaflegu greiðslunni til konunnar líkt og hún vildi meina.

Veitingastaðurinn vildi enn fremur meina að konan hefði ekki sýnt fram á að hún hefði brotið tönnina þegar hún borðaði þar. Konan lýsti því hins vegar á þann veg að hún hefði talað við starfsmann staðarins og sá hefði sagt henni að fara til tannlæknis og senda reikninginn fyrir því. Hún hefði enn fremur afhent starfsmanni veitingastaðarins aðskotahlutinn.

Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að greiðslan hafi falið í sér viðurkenningu á bótaskyldu enda hefði veitingastaðurinn engan fyrirvara gert í tengslum við greiðsluna um að svo væri ekki. Tölvupóstsamskipti konunnar við veitingastaðinn væru enn fremur í samræmi við málflutning hennar.

Veitingastaðurinn var auk skaðabótanna dæmdur til þess að greiða konunni 600 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert