Í köfunarlækningum í S-Afríku

Andri Wilberg Orrason köfunarlæknir.
Andri Wilberg Orrason köfunarlæknir.

Andri Wilberg Orrason læknir er þessa dagana staddur í Suður-Afríku til að ljúka við verklega hlutann af fjarnámi sínu í köfunarlækningum. Hann hefur síðustu tvö ár verið í skurðlækningum á Landspítalanum og stefnir í haust á að fara utan í sérnám í þvagfæraskurðlækningum.

„Þessi hugmynd kom fyrir svona tveimur árum og ég ætlaði alltaf að skella mér í þetta. Núna kom þannig tímabil í náminu hjá mér að ég hafði tíma til að fara og ég ákvað að skrá mig á þetta námskeið,“ segir Andri aðspurður hvernig það hafi komið til að hann ákvað að leggja stund á köfunarlækningar.

Hann segir greinina tengjast öllum þeim sjúkdómum eða slysum sem geta orðið neðansjávar. „Þetta er aðallega í tengslum við atvinnuköfun. Fólk sem starfar á olíuborpöllum, í demantanámuvinnslu eða í rannsóknarleiðöngrum úti á miðju hafi og er að kafa mjög djúpt. Þar kemur inn þessi köfunarveikispæling en þegar djúpt er kafað og andað að sér lofti undir miklum þrýstingi leysist niturgas í meira magni í blóðinu. Þar af leiðandi þarf maður að fara hægt upp til að fá ekki köfunarveiki.“

Á námskeiðinu voru nemendur meðal annars settir í þrýstiklefa þar …
Á námskeiðinu voru nemendur meðal annars settir í þrýstiklefa þar sem líkt var eftir þrýstingi eins og á 50 m dýpi. Þar fengu þeir að upplifa áhrifin sem slíkur þrýstingur getur haft á líkamann. Ljósmynd/Aðsend

Í sex daga fjarlægð frá lækni

Atvinnukafarar á olíuborpöllum eru allt að 28 daga í senn í þrýstihylkjum neðansjávar. Til að forðast köfunarveiki getur tekið allt að sex daga fyrir þá að komast upp á yfirborðið og því er afar langt í læknishjálp ef eitthvað kemur upp á. „Oft á tíðum eru læknar á borpöllunum og stundum er það þannig að einhver fær t.d. botnlangakast og þá þarf skurðlæknir að fara inn í þrýstiklefann og framkvæma aðgerðina þar inni,“ segir Andri sem hefur hug á því í framtíðinni að taka að sér slík tímabundin verkefni, að loknu sérnámi sínu í þvagfæraskurðlækningum.

Atvinnukafarar þurfa einnig að fara í læknisskoðun árlega og sér köfunarlæknir um slíka skoðun. „Vinnuveitandi þeirra gerir þá kröfu að þeir séu líkamlega hæfir til að kafa og vinna nauðsynleg verkefni í kafi og það verður að vera köfunarlæknir sem gefur út það vottorð. Þeir þurfa að vera hraustir til að geta verið svona lengi í kafi og þá þarf öll færni, lungu og hjarta að vera í lagi,“ segir Andri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert