Sömu inntökuskilyrði á Norðurlöndum

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, við undirritun samningsins í Stokkhólmi …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, við undirritun samningsins í Stokkhólmi í dag. Ljósmynd/Aðsend

Menntamálaráðherrar Norðurlandanna undirrituðu í Stokkhólmi í dag framlengingu samnings um jafnan aðgang að háskólum um þrjú ár. Í tilkynningu frá Menntamálaráðuneytinu segir að með samningnum skuldbinda Norðurlöndin sig til þess að veita umsækjendum sem búsettir eru á Norðurlöndunum inngöngu að opinberum menntastofnunum á háskólastigi með sömu skilyrðum og gilda fyrir umsækjendur frá eigin landi.

Árið 2017 voru 500 Íslendingar við háskólanám í Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Á sama tíma stunduðu 175 norrænir námsmenn nám við Háskóla á Íslandi.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, telur samningin mikilvægan og að hann auki möguleika Íslendinga til háskólanáms á Norðurlöndunum. „Við eigum að halda áfram að vinna náið með Norðurlöndum á sem flestum sviðum og gera námsmönnum okkar kleift að sækja sér þekkingu þvert á landamæri,“ sagði Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert