Konan komin til byggða

Ingólfsfjall.
Ingólfsfjall. mbl.is/Guðmundur Karl

Konan, sem leitaði aðstoðar björgunarsveita eftir að hafa lent í sjálfheldu á Ingólfsfjalli fyrr í kvöld, er komin til byggða heil á höldnu. Þetta staðfestir Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar.

Björgunarsveitir frá Selfossi, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Hveragerði voru kallaðar út á sjötta tímanum eftir að konan óskaði aðstoðar en hún var föst efst í stórgrýttu gili í fjallinu og treysti sér ekki til að hreyfa sig. Um fjörutíu mínútur tók að staðsetja konuna þar sem hún gat ekki gefið nákvæma lýsingu á því hvar í fjallinu hún var. Björgunarsveitarmenn komu að konunni um klukkan 18:40 og komu þau niður af fjallinu rétt um klukkan sjö.

Um 20 sjálfboðaliðar úr björgunarsveitunum fjórum komu að björguninni og var notast við dróna, fjór- og sexhjól auk sérhæfðra fjallabjörgunarmanna.

Að sögn Ægis Guðjónssonar, svæðisstjóra hjá Landsbjörg, var konan ekki slösuð en örmagna af þreytu. Björgunarsveitarmenn gengu með hana niður af fjallinu og fóru með hana á Selfoss til reglubundinnar skoðunar. Konan er erlendur ríkisborgari, en hvorki fengust upplýsingar um hvort hún er búsett hér né hver reynsla hennar af fjallgöngum er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert