Fyllast von þegar sólin lætur sjá sig

Lokið verður við framkvæmdir í Ártúnsbrekku síðdegis í dag.
Lokið verður við framkvæmdir í Ártúnsbrekku síðdegis í dag. mbl.is/Golli

Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa margir orðið varir við auknar vegaframkvæmdir á síðustu tveimur sólarhringum, svo sem í Ártúnsbrekku. Það er þó engin tilviljun þar sem fyrirsvarsmenn malbikunarfyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu hafa beðið óþreyjufullir að undanförnu eftir þurru og hlýju veðri svo unnt sé að klára þau stóru verk sem hafa hrannast upp í vætutíðinni. Þeir segjast vongóðir nú þegar sólin lætur sjá sig um að hægt verði að ljúka við verkin sem liggja fyrir í sumar. 

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbæjar-Colas, annars af stærstu malbikunarfyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, segir að loks hafi verið fært að ráðast í stærri vegaframkvæmdir í blíðviðrinu í gær og í dag. Framkvæmdum fyrirtækisins í Ártúnsbrekku á að ljúka síðdegis í dag. 

„Það kom loksins einn góður dagur í gær og í dag og þá settum við allt strax í gang. Við byrjuðum á sunnudagskvöld og það hefur verið unnið nánast sleitulaust þar til núna síðdegis í dag,“ segir Sigþór, en starfsmenn fyrirtækisins vinna við framkvæmdirnar allan sólarhringinn á vöktum. 

Stór verkefni setið á hakanum

Sigþór segir að mörg stór verkefni hafi þurft að sitja á hakanum vegna vætutíðar. „Það eru mörg stór verkefni eftir. Stærsta verkefnið hjá okkur sem er eftir er Akrafjallsvegurinn frá Hvalfjarðargöngunum, stór kafli á Þingvallaveginum og síðan er stór kafli eftir á Hellisheiðinni. Við þurfum helst svona svipað veður eins og hefur verið í gær og í dag næstu tvær til þrjár vikur.“

Aðspurður hvort fyrirtækið sjái fram á að ná að klára þau stóru verkefni sem eftir eru segir Sigþór það tæpt ef veðrið verður áfram eins og það hefur verið meiri hluta sumars. „En maður bara trúir því ekki að þetta geti haldist svo lengi, svona rigningartíð. En ef það eru glennur inn á milli, tveir til þrír góðir dagar, þá náum við þessu því við vinnum allan sólarhringinn með tvískiptar vaktir.“

Sigþór segir jafnframt að nota þurfi sumarið vel til malbikunar því aðstæður verði verri eftir því sem líða tekur á haustið. „Það er unnið vel inn í september í yfirlögnum þar sem er verið að leggja yfir gamalt malbik. En síðan eftir það er ekki hægt að vinna að svoleiðis verkum og þá aðeins hægt að vera í nýbyggingum þar sem verið er að malbika ofan á möl.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert