„Fáum þetta allt upp á borðið“

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

„Fáum þetta allt upp á borðið. Kannski er þetta allt saman í himnalagi og hið besta mál. Nema náttúrulega það að misreikna sig svona svakalega í kostnaði. Það þarf alla vega að laga eitthvað þar,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag um hátíðarfund þingsins sem fram fór á Þingvöllum í sumar en kostnaður við hann var 87 milljónir króna.

Vísaði Jón Þór til þess að samkvæmt upplýsingum frá Alþingi hefðu til að mynda pallar og gangvegir, efni og vinna, kostað 40 milljónir króna og lýsingin 22 milljónir. Mismælti hann sig reyndar varðandi fyrri töluna og sagði milljarðar í stað milljóna sem vakti kátínu.

„Við Píratar óskuðum eftir því, og ég hef sent þann ítrekunarpóst á þingforseta, og vísa í ósk mína undir dagskrárliðnum, að fá samninga Alþingis í tengslum við þann þingfund við þá aðila sem framkvæmdu þessa hluti. Þá getum við kannski farið að glöggva okkur á því hvers vegna þetta fór svona langt umfram,“ sagði Jón Þór en áætlun gerði ráð fyrir 45 milljónum.

„Svo eru það þessir pallar upp á 40 milljónir. Það kom fram í umræðum í nefndinni að þeir eru víst ekki eitthvað sem við eigum og getum notað aftur. Þó er hægt að nota þá aftur en það er þá einhver aðili sem getur leigt öðrum þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert