Upptökur leyfðar við dómsuppkvaðningu

Verjendur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti fyrr í mánuðinum.
Verjendur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti fyrr í mánuðinum. mbl.is/​Hari

Hæstiréttur ætlar að leyfa upptökur í hljóði og mynd þegar dómur verður kveðinn upp í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, en almennt eru slíkar upptökur ekki leyfðar þegar þinghald fer fram.

Í tilkynningu frá Hæstarétti í dag kemur fram að þegar dómur verði kveðinn upp í þessu máli verði hann fyrstur í röðinni og svo verði gert 5 mínútna hlé þar til aðrir dómar verða kveðnir upp.

Almennt eru dómsuppkvaðningar á fimmtudögum klukkan 14:00 og birtist málalisti yfir þau mál sem dómur er kveðinn upp í fyrr um morguninn. Ekki er tiltekið í tilkynningu réttarins hvort dómur verði kveðinn upp í þessu tiltekna máli nú á fimmtudaginn eða hvort það verði á næstu vikum. Málflutningur fór fram dagana 13. og 14. september og verða því nú á fimmtudaginn tvær vikur frá því að málið var tekið fyrir. Hæstiréttur hefur fjórar vikur til að úrskurða í málum.

Í þessu máli er sú sérstaka staða uppi að bæði ákæru­vald og verj­end­ur fara fram á sýknu. Þó er deilt um hvort Hæstiréttur geti komist að annarri niðurstöðu en sýknu. Jón Stein­ar Gunnlaugsson, einn verjenda í málinu, sagði í mál­flutn­ingi sín­um að Hæstirétt­ur ætti ekki ann­an kost en að fall­ast á sýknu­kröfu enda væri dóm­stóln­um óheim­ilt að fara út fyr­ir kröf­ur málsaðila. Davíð Þór Björg­vins­son, sett­ur sak­sókn­ari í mál­inu, sagði engu að síður í sam­tali við mbl.is áður en mál­flutn­ing­ur hófst að það væri á valdi Hæsta­rétt­ar hvort sýknukraf­an yrði tek­in til greina.

Dómarar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti.
Dómarar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert