Yfirheyra skútuþjófinn á Ísafirði

Skútan í höfninni á Rifi í gærkvöldi. Einn maður var …
Skútan í höfninni á Rifi í gærkvöldi. Einn maður var um borð og var hann handtekinn. Yfirheyrslur yfir honum fara fram í dag. mbl.is/Alfons Finnsson

Maðurinn, sem er grunaður um að hafa tekið skútuna Inook ófrjálsri hendi í Ísafjarðarhöfn aðfaranótt sunnudags, er erlendur. Yfirheyrslur yfir manninum standa nú yfir að sögn Hlyns Hafbergs Snorrasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Hann gat ekki veitt nánari upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar að svo stöddu, en hann segir að allir angar málsins séu rannsakaðir, til að mynda hvort fleiri hafi verið að verki en maðurinn var einn um borð í skútunni þegar henni var siglt til hafnar í gærkvöldi.

Lögreglan á Vestfjörðum óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar um tvöleytið í gær sem fann skút­una fljót­lega. Í kjöl­farið var varðskipið Þór sent á vett­vang til að sigla í veg fyr­ir hana og fylgja henni til hafn­ar á Rifi á Snæ­fellsnesi. Skip­stjóri skút­unn­ar var hand­tek­inn við kom­una þangað um klukk­an níu í gær­kvöldi.

Heimildamaður Morgunblaðsins á Ísafirði segir í samtali við blaðið í dag að þjófnaðurinn á skútunni hafi verið vel skipu­lagður og krafðist aðkomu eins eða fleiri manna sem kunnu til verka. Skútan er um þrjátíu til fjörutíu fet að stærð og erfitt var að fram­kvæma þjófnaðinn þar sem skút­an In­ook var bund­in við tvær aðrar skút­ur aft­ast í höfn­inni á Ísaf­irði og fyr­ir fram­an þær hafi þrjár aðrar skút­ur legið bundn­ar sam­an.

Eigandi skútunnar er franskur og á vef RÚV er haft eftir Torfa Einarssyni, sem hefur árum saman litið eftir skútum sem geymdar eru á Ísafirði, að hann hafi látið eigandann vita í gær. Eigandanum var nokkuð brugðið eins og gefur að skilja. Skútan er splunkuný og til stóð að geyma hana á Ísafirði í vetur. Aðeins eru nokkrir dagar síðan eigandi skútunnar var staddur á Ísafirði.

Skútan Inook, sem tekin var ófrjálsri hendi úr Ísafjarðarhöfn um …
Skútan Inook, sem tekin var ófrjálsri hendi úr Ísafjarðarhöfn um helgina, er fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Torfi Einarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert