800 milljóna framúrkeyrsla

Félagsbústaðir eiga margar íbúðir í fjölbýlishúsinu Írabakka 2-16 í Breiðholti. …
Félagsbústaðir eiga margar íbúðir í fjölbýlishúsinu Írabakka 2-16 í Breiðholti. Kostnaður við viðhald fór langt fram úr áætlunum. mbl.is/​Hari

Mikil framúrkeyrsla Félagsbústaða við viðhald á fjölbýlishúsinu Írabakka 2-16 er þriðja málið af því tagi sem upp kemur á stuttum tíma hjá Reykjavíkurborg. Hin eru mikill kostnaður við breytingar á biðstöð Strætó á Hlemmi í Mathöll og endurbætur á bragganum í Nauthólsvík.

Framúrkeyrsla við þessi þrjú verkefni nemur samtals tæpum 800 milljónum króna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.

Í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar kemur fram að upphaflega átti að fara í viðhald á Írabakkahúsinu upp á 44 milljónir. Kom í ljós að gera þurfti meira og samþykkti stjórnin framkvæmdir upp á tæpar 400 milljónir á fjórum árum. Heildarkostnaðurinn varð hins vegar 728 milljónir kr. Framkvæmdastjórinn sagði af sér í kjölfarið. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir því að formaður stjórnar segi einnig af sér en hann hafnar því.

Frumkostnaður við Hlemm Mathöll var 107 milljónir en heildarkostnaður varð 308 milljónir. Varaborgarfulltrúi Miðflokksins leggur til í borgarstjórn í dag að gerð verði óháð rannsókn á ástæðum þess að kostnaður fór svona mikið fram úr áætlunum. Upphafleg áætlun um endurbætur á bragganum við Nauthólsveg hljóðaði upp á um 150 milljónir kr. en kostnaður er nú kominn í 415 milljónir og verkinu ekki lokið. Fulltrúar úr minnihlutanum hafa krafist afsagnar borgarstjóra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert