Tillagan okkar eða tillagan ykkar?

„Ég kemst ekki hjá því að spyrja mig, hvers konar …
„Ég kemst ekki hjá því að spyrja mig, hvers konar tegund af þvættingi er eiginlega hérna í gangi,“ sagði Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um það að meirihlutinn hefði lagt fram eigin tillögu í stað þess að gera breytingartillögu við tillögu Jórunnar Pálu. mbl.is/Eggert

Tvær keimlíkar tillögur voru á dagskrá borgarstjórnar í dag, um að bæta stöðu barna með annað móðurmál en íslensku í skólakerfi borgarinnar. Önnur var frá Sjálfstæðisflokknum og hin frá meirihlutanum í borgarstjórn.

Töluverð ólga var vegna þessa tillagna í röðum borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og sagði Örn Þórðarson borgarfulltrúi að með því að leggja fram eigin tillögu um þetta efni væri meirihlutinn í „pólitískum leik“. Þá vændi Katrín Atladóttir borgarfulltrúi meirihlutann um það á Twitter-síðu sinni í gær að „geta ekki hugsað sér að kjósa með okkar góðu málum“. 

Fulltrúar meirihlutans neituðu því að nokkurs konar pólitískur leikur væri þarna á ferðinni.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins var samin af Jórunni Pálu Jónasdóttur varaborgarfulltrúa flokksins og lögð fram á síðasta borgarstjórnarfundi fyrir tveimur vikum síðan. Afgreiðslu hennar var þó frestað þá, til fundarins í dag.

„Ég kemst ekki hjá því að spyrja mig, hvers konar tegund af þvættingi er eiginlega hérna í gangi,“ sagði Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um það að meirihlutinn hefði lagt fram eigin tillögu í stað þess að gera breytingartillögu við tillögu Jórunnar Pálu.

Hildur lagði síðan fram eigin breytingartillögu við tillögu Jórunnar Pálu og í henni voru þau áhersluatriði sem meirihlutinn var með í sinni tillögu, en umræðu um tillögurnar tvær var slegið saman í borgarstjórn í dag.

Meirihlutinn vildi leggja fram sameiginlega tillögu

Pawel Bartoszek borgarfulltrúi Viðreisnar talaði í upphafi umræðna um „fílana tvo í herberginu“, eða þá staðreynd að bæði meirihlutinn og Sjálfstæðisflokkurinn hefðu lagt fram sitt hvora tillöguna um sama efnið.

„Tillaga borgarfulltrúans Jórunnar Pálu Jónasdóttur lá fyrir hér á seinasta fundi og við gátum þá allir borgarfulltrúar kynnt okkur efni hennar. Mér þykir tillagan ágæt að mörgu leyti. Ég er fullkomlega sammála um það vandamál sem við erum að reyna að ávarpa, en það voru svona ákveðnir vankantar að ég hefði viljað gera ákveðnar breytingar þar á og fleiri sem eru með mér í meirihluta,“ sagði Pawel.

Pawel Bartoszek borgarfulltrúi Viðreisnar sagði meirihlutann hafa leitað til Sjálfstæðisflokksins …
Pawel Bartoszek borgarfulltrúi Viðreisnar sagði meirihlutann hafa leitað til Sjálfstæðisflokksins með sínar ábendingar og viljað leggja fram eina sameiginlega tillögu í þessu máli, en því hefði ekki verið tekið. mbl.is/Eggert

Hann sagði að tillaga Sjálfstæðisflokks hefði mátt vera „ögn skarpari“ um það hvernig ætti að takast við vandamálið, mætti koma meira inn á þá vinnu sem hefði þegar verið unnin á vettvangi Reykjavíkurborgar í þessum málum og mætti einnig ávarpa örlítið betur hlutverk ríkisvaldsins í þessum málum.

Pawel sagði meirihlutann hafa leitað til Sjálfstæðisflokksins með þessar ábendingar og viljað leggja fram eina sameiginlega tillögu í þessu máli, en því hefði ekki verið tekið.

„Við komum með nokkrar hugmyndir og það reyndist því miður ekki vera áhugi á að flytja sameiginlega tillögu. Svo verður þá að vera, en ég vona að þarna sé ekki dæmi um að menn séu að innleiða einhvern skóla, sem hefur kannski verið ástundaður hérna einu sinni, að vera í rauninni í einhverri andstöðu og vilja ekki láta spyrða sig í of kósý sambandi við meirihlutann, vegna þess að það gæti komið einhvernveginn illa út fyrir menn,“ sagði Pawel.

Hildur Björnsdóttir svaraði þessum orðum Pawels á þá vegu að stóri bleiki fíllinn í herberginu væri það að meirihlutinn gæti auðsjáanlega ómögulega samþykkt nokkuð sem kæmi frá minnihlutanum. 

„Jafnvel þó við höfum samþykkt hér rétt áðan fína tillögu frá meirihluta borgarstjórnar. Ef þið hefðuð fundið á tillögunni vankanta, hefði verið frjálst að bera upp breytingatillögu. Það höfum við gert við samskonar aðstæður. Eru þetta virkilega vinnubrögðin sem við ætlum að temja okkur hér í upphafi kjörtímabils? Mér þykir þetta vandræðalegt,“ sagði Hildur.

Sátt um báðar tillögurnar

Þrátt fyrir þetta pólitíska argaþras í borgarstjórn var mikil og góð efnisleg sátt um tillögurnar tvær, sem taka á bágri stöðu barna með annað móðurmál en íslensku innan skólakerfisins og hafa borgarfulltrúar rætt um að samþykkja þær báðar.

Umræðum er lokið, en atkvæðagreiðslu um tillögurnar var frestað þar til síðar á fundinum, sem viðbúið er að standi fram á kvöld.

Tillaga Sjálfstæðisflokks

Tillaga meirihlutaflokkanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert