Ætla að bæta stöðu barna innflytjenda

Frá fundi borgarstjórnar í gær. Jórunn Pála Jónasdóttir er fyrir …
Frá fundi borgarstjórnar í gær. Jórunn Pála Jónasdóttir er fyrir miðri mynd. mbl.is/Eggert

Tillaga um að bæta stöðu barna með annað móðurmál en íslensku í skólakerfinu var samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur í gærkvöldi. Tvær keimlíkar tillögur um þetta efni voru á dagskrá borgarstjórnar í gær, ein frá Sjálfstæðisflokki og önnur frá meirihluta borgarstjórnar.

Eins og mbl.is greindi frá í gær olli það nokkru ósætti á fundi borgarstjórnar og sökuðu sjálfstæðismenn meirihlutann um að geta ómögulega samþykkt góð mál einungis af því að þau væru lögð fram í nafni Sjálfstæðisflokksins. Að lokum varð lendingin þó sú að málið var afgreitt í góðri sátt, eftir að meirihlutinn dró sína tillögu til baka og gerði breytingatillögu við tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem var samþykkt samhljóða.

„Hún var í rauninni gerð sértækari,“ segir Jórunn Pála Jónasdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og flutningsmaður tillögunnar, um það hvaða breytingar voru gerðar á tillögunni áður en hún var samþykkt.

„Það var farið meira inn á það með hvaða hætti ætti að ná þessu markmiði og byggt á efnum greinargerðanna, bæði okkar og meirihlutans,“ segir Jórunn Pála.

„Ég er mjög ánægð með afgreiðslu meirihlutans og hvernig þetta endaði allt saman.“

Mál sem brennur á mörgum

Jórunn Pála lagði málið fram í mannréttinda- og lýðræðisráði borgarinnar fyrir nokkrum vikum og segir í samtali við blaðamann að í sínum samtölum í kosningabaráttunni í vor hafi hún fundið fyrir því að þessi mál brynnu á fólki sem starfaði innan skólakerfisins. Jórunn segir að helst hafi verið nefnt að fjármagn til íslenskukennslu og móðurmálskennslu hefði ekki aukist í takt við aukinn fjölda nemenda sem hafi ekki íslensku að móðurmáli.

Markmið tillögunnar er sem áður segir að tryggja að börn innflytjenda hafi jöfn tækifæri til náms og einnig til þátttöku í íþrótta- og tómstundakerfi. Jórunn bendir á að á Íslandi sé staðan sú að það sé 23% munur á meðaleinkunnum barna af innlendum og erlendum uppruna og að sá munur sé sá mesti sem fyrirfinnst innan aðildarríkja OECD.

Jórunn Pála segir að bág staða barna innflytjenda innan skólakerfisins …
Jórunn Pála segir að bág staða barna innflytjenda innan skólakerfisins brenni á mörgum. Ljósmynd/Aðsend

Í tillögunni er meðal annars lagt til að námsráðgjöf og heimanámsaðstoð til barna með annað móðurmál en íslensku verði efld og að skimað verði sérstaklega eftir námsörðugleikum hjá þessum hópi barna með því að taka í notkun viðurkennt matstæki sem mælir almenna þekkingu og námsfærni á móðurmáli nemanda.

Þá kveður tillagan einnig á um að áætlanir um móttöku barna innflytjenda í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum verði endurskoðaðar. Reykjavíkurborg markar einnig þá stefnu samkvæmt tillögunni að ríkið og aðrir aðilar sem eiga aðkomu að mótun menntakerfisins beiti sér fyrir því að gefið verði út námsefni sem hentar nemendum undir 18 ára aldri með annað móðurmál en íslensku. Í tillögunni segir einnig að Reykjavíkurborg muni efla samstarf við önnur sveitarfélög um málefni barna með annað móðurmál en íslensku.

Jórunn segir að fyrir liggi mikið af upplýsingum um vandann sem þurfi að bregðast við. 

„Við erum komin með öll verkfærin upp í hendurnar til þess að grípa til einhverra aðgerða og tækla þetta,“ segir Jórunn Pála, sem á von á því að skriður komist á málið á næstu mánuðum, eftir að stefnuyfirlýsing borgarstjórnar verði send til skóla- og frístundasviðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert