Heimilisofbeldi og eftirför

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um heimilisofbeldi í Hafnarfirði í nótt en ofbeldismaðurinn hafði yfirgefið heimilið áður en lögreglan kom þangað. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar en ekki kemur fram hvort hann hafi verið handtekinn síðar.

Ökumaður bifreiðar sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu á Breiðholtsbraut í nótt og veitti lögregla honum eftirför sem endaði í Fellahverfinu þar sem maðurinn var handtekinn. Engan sakaði að sögn lögreglu.

Ökumaðurinn reyndist í annarlegu ástandi og er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann gistir í fangaklefa.

Í morgunsárið var tilkynnt um innbrot í bíl í austurborginni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Einn var stöðvaður fyrir akstur undir áhrifum áfengis á Akureyri í gærkvöldi. Annars var tíðindalítið á næturvaktinni hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert