Mörk leyfilegs áfengismagns verði lækkuð

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meðal nýmæla í frumvarpi að nýjum umferðarlögum, sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag, er að lögbinda hjálmaskyldu barna en í dag er einungis kveðið á um hana í reglugerð. Hjólreiðakafli núgildandi laga hefur verið tekinn til heildarendurskoðunar og reglur um hjólreiðar skýrðar betur.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að reglur um akstur í hringtorgum, sem hefð hefur myndast fyrir hér á landi, verði lögfestar. Þar er átt við að ökumaður á ytri hring veiti þeim sem ekur á innri hring forgang út úr hringtorgi. Þá er gert ráð fyrir banni við akstri gegn rauðu ljósi í frumvarpinu en til þessa hefur það aðeins verið í reglugerð.

Eitt helsta nýmæli frumvarpsins er að mörk leyfilegs vínandamagns í blóð iökumanns verði lækkuð úr 0,5 í 0,2 prómill. Með lækkun markanna er verið að senda skýr skilaboð til ökumanna og þjóðfélagsins í heild um að akstur og áfengisdrykkja fer einfaldlega ekki saman að því er Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni á Alþingi í dag.

Þó verður ekki gert ráð fyrir ökuleyfissviptingu ef magn áfengis er milli 0,2 prómill og 0,5 prómill heldur einungis sekt. Enn fremur er í frumvarpinu gert ráð fyrir að kveðið verði í reglugerð á um vanhæfismörk vegna ýmissa lyfja en slíka reglugerðarheimild er ekki að finna í núgildandi lögum. Góð reynsla þykir af slíku í Noregi.

Þá verður fjallað um snjalltæki í nýjum umferðarlögum nái frumvarpið fram að ganga og slík tæki skilgreind og skýrt kveðið á um bann við notkun slíkra tækja undir akstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert