Kópavogsbær sýknaður af kröfum Lauga

Kópavogsbær var sýknaður af kröfum Lauga.
Kópavogsbær var sýknaður af kröfum Lauga. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur sýknað Kópavogsbæ af skaðabótakröfum Lauga vegna ákvörðunar bæjarins um að hafna tilboði fyrirtækisins í leigu á líkamsræktaraðstöðu við sundlaugar í bænum. Þar með staðfesti Landsréttur sýknudóm Héraðsdóm Reykjaness síðan í febrúar síðastliðnum.

Árið 2014 auglýsti Kópavogsbær eftir tilboðum í leigu á líkamsræktaraðstöðunni. Laugar gerðu tilboð ásamt öðru fyrirtæki. Tilboð þess síðarnefnda var metið ógilt vegna annmarka í fomi en tilboði Lauga var hafnað þar sem það uppfyllti ekki kröfur í útboðslýsingu.

Laugar ehf. höfðaði mál á hendur Kópavogsbæ og krafðist 110 milljóna króna í skaðabætur vegna ákvörðunar bæjarins um að hafna tilboði fyrirtækisins.

Landsréttur taldi að ákvörðun bæjarins um að hafna tilboði Lauga hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun heldur ákvörðun einkaréttarlegs eðlis. Lagt var til grundvallar að innkaupareglur bæjarins hefðu átt við um útboðið.

Í ljósi þess að 17. gr. innkaupareglnanna gerði almennt ráð fyrir því að ekki yrði samið við bjóðanda sem væri með neikvætt eigið fé og að Kópavogsbær hafði metið það svo að útskýringar Lauga á eiginfjárstöðu hefðu ekki verið fullnægjandi yrði að leggja til grundvallar að ákvörðun bæjarins um að hafna tilboði Lauga hefði verið byggð á málefnalegum forsendum. Því var Kópavogsbær sýknaður af kröfum Lauga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert