„Spörkuðu ítrekað í son minn“

Sonur Hákonar varð fyrir ofbeldi í skólanum í gær vegna …
Sonur Hákonar varð fyrir ofbeldi í skólanum í gær vegna þess að hann er rauðhærður. mbl.is/Hari

„„Pabbi ... Strákarnir voru að sparka í mig og ég veit ekki af hverju ... Þeir sögðu eitthvað „ginger“ og það hlógu allir a[ð] mér og ég skil ekki af hverju?““ Þannig hefst Facebook-færsla Hákonar Helga Leifssonar en rauðhærður sonur hans varð fyrir aðkasti í gær.

Hákon segir að sonur hans hafi hringt í hann í gærmorgun til að segja frá því að sparkað hefði verið í hann. Ástæðan fyrir spörkunum segir Hákon dagsetninguna en 20. nóvember hefur verið kallaður dagur þar sem sparkað er í rauðhærða: „Kick a Ginger Day“.

Eldri nemendur fylgdust með

Þetta fór þannig fram að tveir strákar spörkuðu ítrekað í son minn á meðan annar hópur eldri nemenda fylgdist með. Sá hópur skarst ekki í „leikinn“ nema þá með undirtektum, hvatningu og hlátrasköllum, þar sem dagurinn er jú til þess að sparka í rauðhærða,“ skrifar Hákon.

Hann segir að þarna geti hann varla náð lengra. Sonur hans hafi verið miður sín vegna ofbeldisins sem hann varð fyrir og hafði ekki hugmynd um af hverju stafaði. „Það var sparkað í hann og hlegið að honum og hann vissi ekki af hverju. Hvernig á ég eiginlega að svara honum og spurningunum? Hvernig myndir þú svara spurningunni?“ spyr Hákon.

Hann segir að spörkin og hláturinn skilji ekki eftir sig varanleg sár. Sonur hans muni aldrei gleyma því að hann er öðruvísi en flestir og það að vera öðruvísi, þótt menn stjórni því ekki, geti orsakað ofbeldi af hálfu annarra.

Þetta er glæpurinn sem framinn var í morgun og ég er skíthræddur um að hann muni aldrei gleyma þessari ömurlegu lexíu,“ skrifar Hákon í gærkvöldi.

Skólinn tók á málinu með aðdáunarverðum hætti

Hákon segist hafa rætt við skólann sem hafi tekið á málinu með aðdáunarverðum hætti. Einnig hafi hann rætt við foreldra strákanna tveggja og viðbrögð þeirra hafi verið til fyrirmyndar. Reiði Hákonar beinist ekki að skólanum, starfsfólkinu þar eða strákunum tveimur.

Sökina hér, eins og ég hef bent á í öðrum aðstæðum, er fyrst og fremst að finna hjá mér sjálfum, þér og okkur öllum. Ábyrgðina á velferð hvert annars í samfélaginu eigum við öll. Það er undir okkur komið að kenna börnum okkar gildi, að gera rétt, setja sig í spor annarra, að vera sterk og þora að stíga fram og segja nei,“ skrifar Hákon.

Hann bætir því við að það sé ekki sanngjarnt að nokkurt barn þurfi að ganga í gegnum eitthvað viðlíka. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert