Krefja þrjár konur um bætur vegna Hlíðamáls

Í stefnunni gegn Hildi Lilliendahl er krafist að ummæli sem …
Í stefnunni gegn Hildi Lilliendahl er krafist að ummæli sem hún skrifaði á Facebook verði dæmd dauð og ómerk. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir karlmenn, sem sakaðir voru um nauðgun í Hlíðamálinu svokallaða, hafa stefnt Hildi Lillendahl Viggósdóttur fyrir færslu sem hún birti á Facebook. Krefjast þeir að hún verði dæmd til að greiða þeim hvorum um sig 1,5 milljónir króna.

Þá hafa mennirnir stefnt annarri konu sem skipulagði mótmæli við lögreglustöðina við Hverfisgötu eftir að fréttaflutningur af málinu birtist í fjölmiðlum. Konan er krafin um fjórar milljónir króna.

Stefnurnar voru lagðar fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í október og til stóð að taka þær fyrir á föstudag en fyrirtökunni hefur verið frestað til 7. janúar, samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi Vilhjálmssyni, lögmanni mannanna.

Í stefnunni gegn Hildi er krafist að ummæli sem hún skrifaði á Facebook verði dæmd dauð og ómerk. Í stefnunni er vísað í færsluna þar sem Hildur skrifar meðal annars að mennirnir hafi í sameiningu nauðgað konum „svo yfirdrifið kerfisbundið að þeir hafa til þess sérútbúna íbúð.“ Hildur sagðist ekki vilja tjá sig um stefnuna þegar mbl.is leitaði eftir viðbrögðum hennar.

Í október í fyrra voru fjórir fréttamenn 365 miðla dæmdir til að greiða mönnunum miskabætur vegna frétta um meint brot mannanna. Málið varðar um­fjöll­un fréttamiðla 365 af ætluðum kyn­ferðis­brot­um mann­anna tveggja gegn tveim­ur kon­um sem áttu að hafa verið fram­in í októ­ber 2015. Mál mann­anna voru rann­sökuð en þau síðan felld niður.

Fimm dómsmál í heildina

Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is að dómsmálin séu fimm talsins. Auk stefnanna tveggja sem birtar voru í október hefur verið dæmt í einu máli í Hæstarétti. Þá hefur annarri konu verið stefnt vegna ummæla í færslum sem konan birti á Twitter og Facebook. Mennirnir fara fram á að konunni verði gert að greiða þeim 2 milljónir króna, hvorum um sig. Sigmundi Erni Rúnarssyni, fréttastjóra Hringbrautar, hefur einnig verið stefnt fyrir skrif Hringbrautar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert