Auglýst eftir ráðuneytisstjóra í nýju heilbrigðisráðuneyti

Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Á myndinni má sjá …
Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Á myndinni má sjá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. mbl.is/Valli

Auglýst hefur verið laust til umsóknar embætti ráðuneytisstjóra í nýju heilbrigðisráðuneyti sem tekur til starfa 1. janúar 2019. Ráðuneytið verður til við skiptingu velferðarráðuneytisins í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti í samræmi við forsetaúrskurð nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Auglýsingin var birt á Starfatorgi 14. desember. Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.

„Helstu verkefni nýs heilbrigðisráðuneytis varða heilbrigðisþjónustu á landinu öllu, lyfjamál og lýðheilsumál. Undir ráðuneytið heyrir fjöldi stofnana, þar á meðal Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Landspítali, heilbrigðisstofnanir um land allt, Sjúkratryggingar Íslands og Embætti landlæknis. Einnig fer ráðuneytið með alþjóðlegt samstarf í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Heilbrigðisráðuneytið annast rekstur og starfsmannahald bæði fyrir heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið. Lögð er rík áhersla á náið samráð við Alþingi, önnur ráðuneyti, hagsmunaaðila og notendur þjónustunnar þegar unnið er að gerð laga, reglugerða og stefnumótandi áætlana á málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins,“ segir í tilkynningunni.

Gert er ráð fyrir að skipað verði í embættið hið fyrsta eftir að skýrsla nefndar sem metur hæfni umsækjenda liggur fyrir. Skipað er í embættið til fimm ára.

Nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert