Vilja lækka hámarkshraða við Hringbraut

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skoðað verður að lækka hámarkshraða við Hringbraut úr 50 km/klst. niður í 40 km/klst., bæta lýsingu við gangbrautir og bæta stýringu umferðarljósa. Þetta voru tillögur sem fulltrúar Vegagerðarinnar komu með á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, óskaði eftir fundinum vegna bílslyss þar sem ekið var á barn við Hringbraut í síðustu viku. Hún stýrði fundinum og segir í samtali við mbl.is að hann hafi verið mjög góður en fulltrúar Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar voru boðaðir á hann.

„Við í nefndinni áréttuðum að það væri mikilvægt að efla öryggi gangandi vegfarenda við Hringbraut,“ segir Rósa. Enn fremur segir hún að áðurnefndar tillögur kosti ekki mikið og því ætti að vera auðvelt að hrinda þeim í framkvæmd.

Hún vonast til þess að samstarf milli Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og lögreglu verði gott en benti á að mörg slys hefðu orðið við Hringbraut undanfarin ár. „Skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar benti á að á síðustu fimm árum hafa orðið 20 slys á þessum hluta Hringbrautar, þar af sjö þar sem ekið var á óvarða vegfarendur,“ segir Rósa.

Á ní­unda tím­an­um að morgni ní­unda janú­ar var ekið á barn á gatna­mót­um Meist­ara­valla og Hring­braut­ar og var það flutt á bráðamót­töku, þó var ekki talið að barnið hefði slasast al­var­lega.

Sett var á gang­braut­ar­varsla í kjöl­far slyss­ins sem sögð var tíma­bund­in lausn. Reykja­vík­ur­borg er ekki heim­ilt að ráðast í úr­bæt­ur án aðkomu Vega­gerðar­inn­ar þar sem veg­ur­inn er í eigu þess síðar­nefnda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert