Ætla í aðgerðir gegn ágengum plöntum

Lúpínubreiða suðaustan Lónsgerðis í Krossanesborgum.
Lúpínubreiða suðaustan Lónsgerðis í Krossanesborgum. Ljósmynd/Sverrir Thorstensen

Á næstunni verða mótaðar tillögur að aðgerðum gegn ágengum plöntum hjá Akureyrarbæ, en ástæða þess er að bregðast við útbreiðslu lúpínu og kerfils í Krossanesborgum og Hrísey. Krossnesborgir er fólkvangur og útivistarsvæði rétt norðan við Akureyri.

Á fundi umhverfis- og mannvirkjaráðs í vikunni kynntu þeir Sverrir Thorstensen og Þorsteinn Þorsteinsson skýrslu sína um fuglalíf í Krossnesborgum. Hafa þeir skilað slíkum skýrslum á fimm ára fresti síðustu tuttugu ár. Þar kemur meðal annars fram að lúpína sé orðin samfelld við austurhluta fólkvangsins. Þá séu komnar stórar breiður af innan svæðisins. Auk þess séu komnar þéttar breiður af skógarkerfli á svæðinu og sé hann farinn að dreifast víða.

Guðríður Friðriksdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs, segir í samtali við mbl.is það sé ekki gott þegar lúpínan eða kerfillinn fari inn á svæði eins og þessi. Útbreiðsla þeirra hafi áhrif á gróðurfar og þar með á fuglalífið, en fuglalíf í Krossnesborgum er mjög fjölskrúðugt.

Þorsteinn Þorsteinsson fuglaáhugamaður er einn þeirra sem hafa fylgst með …
Þorsteinn Þorsteinsson fuglaáhugamaður er einn þeirra sem hafa fylgst með fuglalífi í Krossanesborgum. mbl.is/Kristján Kristjánsson

Segir Guðríður að umhverfis- og mannvirkjasvið muni á næstunni setja niður aðgerðaáætlun og svo verði farið í aðgerðir næsta vor eða sumar. Segir hún að líklegast verði ráðist í að slá lúpínuna.

Í fyrrnefndri skýrslu kemur fram að Alaskalúpínan og skógarkerfill sæki verulega á og að aukin útbreiðsla þeirra geti ógnað varpkjörlendi fugla á borð við rjúpu, heiðlóu, spóa og jaðrakans. Þar sem stór hluti Evrópustofns heiðlóu og spá verpi hér á landi flokkist þær sem ábyrgðategundir Íslands og mikilvægt sé því að vernda varpkjörlendi þessara tegunda. „Að okkar mati þarf að grípa inn í útbreiðslu ágengra framandi plantna áður en það verður óviðráðanlegt,“ segir í skýrslunni.

Guðríður segir að auk þess að sækja á við Krossanesborgir séu bæði kerfill og lúpínan talsvert útbreidd og skæð í Hrísey. Aðgerðaáætlunin muni einnig ná til þess svæðis. Aftur á móti eigi sveitarfélagið ekki allt land í eyjunni og séu hendur sveitarfélagsins því bundnari þar en í Krossanesborgum.

Krossanesborgir eru rétt norðan við Akureyri.
Krossanesborgir eru rétt norðan við Akureyri. Kort úr skýrslu um fuglalíf í Krossanesborgum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert