Samþykktu breytingar á Hamraneslínu

Með breytingunum mun háspennulínan færast tímabundið á kafla við tengivirkið …
Með breytingunum mun háspennulínan færast tímabundið á kafla við tengivirkið í Hamranesi þar til línan verður lögð í jörð. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum í dag að veita Landsneti tvö framkvæmdaleyfi fyrir breytingum á legu Hamraneslínu 1 og 2.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að útgáfa leyfisins marki tímamót í uppbyggingu og öryggi atvinnulífs í Hellnahrauni og uppbyggingu byggðar í Skarðshlíð, nýju og fjölskylduvænu íbúðahverfi inn af Völlunum í Hafnarfirði.

Með breytingunum mun háspennulínan færast tímabundið á kafla við tengivirkið í Hamranesi þar til línan verður lögð í jörð. Einnig var samþykkt að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til að tvöfalda kaflann á Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi og vestur fyrir Krýsuvíkurgatnamót með því að byggja nýja akbraut sunnan núverandi vegar. „Hafnarfjarðarbær hefur talað máli tvöföldunar um árabil og loks sér fyrir endann á þessum áfanga tvöföldunar Reykjanesbrautarinnar,“ segir í tilkynningu frá bænum.

Lega Hamraneslínu í nýjasta íbúðahverfi Hafnarfjarðar hefur staðið uppbyggingu í hverfinu fyrir þrifum en línan liggur þvert í gegnum Skarðshlíðina. Staðið hefur til að færa háspennulínuna um töluvert skeið og er því miklum áfanga náð með veitingu þessa leyfis þannig að framkvæmdir við flutning geti loks hafist, núverandi íbúum í Vallahverfi, framtíðaríbúum í Skarðshlíðarhverfi og öðrum Hafnfirðingum til mikillar ánægju, að því er segir í tilkynningu frá bænum.

Áætlað er að framkvæmdum verði að fullu lokið um mánaðamótin október/nóvember 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert