Útilokað fyrir blinda að labba Laugaveg

Ótal skilti eru á Laugaveginum.
Ótal skilti eru á Laugaveginum. mbl.is/Eggert

„Það er nánast útilokað fyrir mig að labba Laugaveginn vegna allra hindrananna á gangstéttunum. Öll þessi auglýsingaskilti frá veitingastöðum og verslunum eru alls staðar,” segir Vilhjálmur Gíslason sem er blindur og notast við blindrastaf. 

Nýlega rak Vilhjálmur sig illa í eitt slíkt skilti og datt næstum niður tröppur þegar hann reyndi að komast fam hjá því. „Stundum stoppar fólk mig bæði Íslendingar og ferðamenn og býðst til að hjálpa mér,“ segir Vilhjálmur og bendir á að það sýni að fólki blöskri aðstæðurnar.  

„Vantar alla þjónustulund hjá borginni“

Fátt er um svör hjá Reykjavíkurborg þegar Vilhjálmur hefur reynt að kanna hvort umrædd skilti séu lögleg sem og hvort einhverjar reglur gilda um staðsetningu þeirra. 

„Ég fékk ekki samband við neinn. Ég fékk alltaf sömu svörin um að ég þyrfti að senda tölvupóst þrátt fyrir að ég benti þeim á að ég gæti hvorki skrifað tölvupóst sjálfur né lesið hann,“ segir Vilhjálmur sem er blindur eins og áður hefur komið fram. Hann gagnrýnir þessa þjónustu eða skort á henni og segir „vanta alla þjónustulund hjá borginni“. 

Ástandið hefur verið svona síðustu ár og enginn vilji hefur staðið til að laga ástandið, að sögn Vilhjálms. Hann hefur talað við nokkra veitingahúsaeigendur. „Þeir skilja svo vel vandann þegar ég ræði við þá og svo er það allt gleymt um leið og ég loka hurðinni,“ segir Vilhjálmur og glottir. 

Það er ekki auðvelt fyrir blinda og sjónskerta að ganga …
Það er ekki auðvelt fyrir blinda og sjónskerta að ganga Laugaveginn. mbl.is/Eggert

Óþarfi að vera með læti

Vilhjálmur tekur fram að hann vilji reyna að fá svör og að ástandið verði bætt. Hann hugsi fremur í lausnum. „Blindir og sjónskertir geta oft verið með læti og það er óþarfi. Ég veit það sjálfur, þegar ég var sjáandi að maður hugsaði ekki um það hvernig blindir hafa það. Þegar maður lendir sjálfur í þessu fer maður að skilja,“ segir Vilhjálmur. Þess vegna finnist honum slæmt að lenda á vegg og geta ekki rætt þetta við borgina sem sýni málinu skeytingarleysi. „En ég vona einn daginn að eitthvað verði gert,” segir hann. 

Tilboðin eru fjölmörg sem birtast á skiltum á Laugaveginum.
Tilboðin eru fjölmörg sem birtast á skiltum á Laugaveginum. mbl.is/Eggert

Auk skiltanna á Laugavegi eru fjölmargar aðrar hindranir sem bíða blindra og sjónskertra. „Fólk stoppar oft á gangstéttinni og heldur smá fund þar og þá lendir maður í því að reka stafinn óvart í það sem ég vil alls ekki,“ segir Vilhjálmur. Bílum er gjarnan lagt upp á gangstéttir en þeir sem koma með vörur eru með leyfi til þess á Laugaveginum. „Ef bílstjórarnir sjá mig bjóðast þeir alltaf til að aðstoða mig. Ég vil alls ekki lasta þá,“ segir Vilhjálmur í léttum tón.

Lögreglan fljót að bregðast við

Byggingaframkvæmdir í borginni eru oft ekki vel merktar með tilskildum skiltum. Vilhjálmur hefur oft rekið sig á ýmislegt í þeim efnum. Síðast í framkvæmdum í Austurstræti. Hann benti lögreglunni einu sinni sem oftar á það sem betur mætti fara. „Lögreglan er alveg einstök og er fljót að kippa því í liðinn þegar ég hef leitað til hennar. Samskiptin eru alveg með einstakri prýði,“ segir hann og ítrekar að það sé ekki það sama upp á teningnum hjá Reykjavíkurborg.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert