Efla samstarf í varnar- og öryggismálum

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, og Guðlaugur Þór Þórðarson undirrituðu í …
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, og Guðlaugur Þór Þórðarson undirrituðu í dag samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, undirrituðu á fundi sínum í Lundúnum í dag samkomulag milli Íslands og Bretlands um að efla tvíhliða samstarf ríkjanna í varnar- og öryggismálum.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að um er að ræða uppfærslu af samkomulagi frá árinu 2008 sem nær nú til fleiri samstarfsþátta en áður í anda þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Samkomulagið tekur þannig bæði til þátta er varða varnar- og öryggismál sem og löggæslumála. „Þar má t.a.m. nefna eftirlit í lofti og á sjó, hryðjuverkavarnir, skipulagða glæpastarfsemi, nútímaþrælahald, netöryggi og leit og björgun,“ segir í tilkynningu. 

„Umhverfi öryggismála hefur tekið stakkaskiptum á umliðnum árum og því ánægjulegt að ljúka gerð samkomulags sem tekur mið af því,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningu. 

Þá segir hann Ísland og Bretland vera náin samstarfsríki, meðal annars innan Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna, og deila hagsmunum víða, þ.m.t. á norðanverðu Atlantshafi.

„Við erum staðráðin í að takast á við nýjar áskoranir í sameiningu og stuðla að auknu öryggi og stöðugleika í okkar heimshluta. Þá er afar gott, á þessum tímapunkti, að árétta enn frekar þau jákvæðu tvíhliða samskipti sem við höfum átt við Bretland,“ segir Guðlaugur Þór. 

Á fundinum ræddu ráðherrarnir einnig stöðuna varðandi fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og málefni norðurslóða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert