Synjaði 50 Bangladessum um skólavist

Nemendurnir 50 höfðu ætlað sér að hefja nám á Bifröst …
Nemendurnir 50 höfðu ætlað sér að hefja nám á Bifröst á vorönn, en Útlendingastofnun synjaði þeim öllum um dvalarleyfi. mbl.is/Árni Sæberg

Kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í gær að Útlendingastofnun hafi ekki verið heimilt að banna 50 manns frá Bangladess að koma til landsins til að stunda nám við Háskólann á Bifröst. Fólkið hafði ætlað að hefja nám við skólann á vorönn, en Útlendingastofnun hafnaði öllum umsóknunum á grundvelli þjóðernis.

Taldi stofnunin hættu á að nemendurnir væru allir að sækja um á röngum forsendum. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Leifur Runólfsson, lögmaður háskólans, segir í samtali við mbl.is að árið 2017 hafi verið haldinn stefnumótunarfundur uppi á Bifröst og niðurstaða hans hafi verið að styrkja stöðu skólans bæði faglega og fjárhagslega með því að sækja meira á alþjóðlegan markað. Í framhaldi hafi verið boðið upp á erlendar námsleiðir og fundið út hvernig skólinn ætti að sækja námsmenn að utan.

Leifur segir að farið hafi verið inn á Asíumarkað, sérstaklega á Bangladess-markað, í ljósi þess að margir höfðu sótt um skólavist frá Asíu.

[Þetta] kom okkur mjög á óvart og minnti okkur á …
[Þetta] kom okkur mjög á óvart og minnti okkur á satt best að segja á þjóðernishreinsanir,“ segir Leifur. Ljósmynd/Aðsend

Minnti á þjóðernishreinsanir

Umsóknir um skólavistina koma í gegnum umboðsmenn sem skólinn er með, m.a. í Bangladess, sem hafa milligöngu um að aðstoða fólk við að fá skólavist.

„Í kjölfarið komu 50 umsóknir fyrir síðustu vorönn og Útlendingastofnun tók þá ákvörðun að hafna öllum aðilum um dvalarleyfi til náms,“ segir Leifur. 47 af 50 hafi kært þessa ákvörðun stofnunarinnar og í gær hafi kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að senda málið aftur til Útlendingastofnunar.  Ekki sé heimilt að hafna fólkinu á þeim grundvelli að það komi frá Bangladess. Það hefði fengið skólavist á Bifröst og því bendi ýmislegt til þess að það hafi ætlað sér í nám.

Spurður hvort ákvörðun Útlendingastofnunnar hafi komið forsvarsmönnum skólans á óvart segir hann svo vera. „Það kom okkur mjög á óvart og minnti okkur á satt best að segja á þjóðernishreinsanir,“ segir Leifur. „Við hefðum getað skilið ef einhverjum hefði verið hafnað, þótt ég viti ekki hver það hefði átt að vera. Að allri línunni væri hafnað af því að einhver frá Bangladess hafði einhvern tímann sótt um hæli einhvers staðar það kom okkur svolítið á óvart.“

Málið fer nú aftur til Útlendingastofnunar til löglegrar meðferðar og kveðst Leifur vera bjartsýnn á að nemendurnir 47 geti hafið nám á Bifröst næsta haust.

„Ég trúi ekki öðru en að þeir gefi út dvalarleyfi. Þetta fólk er búið að lýsa því yfir að það sé reiðubúið að hefja nám á haustönn og ég vil trúa því að þau fái að gera það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert