Mun ekki tefja fjölmiðlafrumvarpið

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir athugasemdir Sjálfstæðismanna ekki til …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir athugasemdir Sjálfstæðismanna ekki til þess fallnar að tefja fjölmiðlafrumvarpið. mbl.is/Golli

„Það var búið að afgreiða þetta frumvarp úr ríkisstjórn og úr þingflokkunum. Ég mun mæla aftur fyrir frumvarpinu á fyrstu dögum haustþingsins og svo fer það í nefnd og við klárum það mál,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í samtali við mbl.is um fjölmiðlafrumvarpið.

Sagt var frá því í Fréttablaðinu í dag að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vilji sjá verulegar breytingar á frumvarpinu sem snýr að stuðningi við fjölmiðla áður en það verður lagt fram í haust.

„Það sem blasir við er að stafræna alþjóðlega hagkerfið hefur gjörbreytt rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi og allstaðar,“ útskýrir Lilja Dögg og vísar til þess  að umfangsmikil vinna hefur farið fram til að efla rekstrarumhverfi innlendra fjölmiðla.

„Niðurstaðan var sú að það væri farsælast að byrja á einkareknum fjölmiðlum. Styðja betur við þá – eins og stendur í stjórnarsáttmálanum – og við fórum í ítarlega undirbúningsvinnu með aðkomu sérfræðinga, hagsmunaaðila og fulltrúum stjórnarflokkana,“ segir ráðherrann.

Í góðu samstarfi

Þá hefur meðal annars verið haft eftir Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, að „Ef það er einhver alvara í því að styrkja stöðu sjálfstæðra fjölmiðla þá verða menn að taka á þátttöku RÚV á samkeppnismarkaði.“ Spurð um orð Óla Björns segir Lilja Dögg frumvarpið fullunnið í samstarfi við fyrrnefnda aðila.

„Það er alltaf þannig með frumvörp, að það eru þingmenn sem gera athugasemdir og er þeim er frjálst að gera það. Svo fer málið í nefnd og er unnið áfram með málið þar. Ég er í mjög góðu samstarfi við Pál Magnússon formann allsherjar- og menntamálanefndar og líka Óla Björn Kárason formann efnahags- og viðskiptanefndar. Við erum sammála um það að klára málið og setja það inn í nefnd,“ segir hún.

Ráðherrann segir jafnframt að athugasemdir við frumvarpið séu ekki til þess fallnar að tefja afgreiðslu málsins frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert