Lýkur hringferðinni við Laugardalshöll

Einar Hansberg Árnason hefur stoppað í 36 sveit­ar­fé­lög­um og róið, …
Einar Hansberg Árnason hefur stoppað í 36 sveit­ar­fé­lög­um og róið, skíðað eða hjólað í sér­stök­um þrek­tækj­um 13.000 metra á hverj­um stað. Ljósmynd/Aðsend

Ein­ar Hans­berg Árna­son lýkur á morgun 500.000 metra langri hringferð sinni um landið. Frá því síðasta föstudag hefur Einar stoppað í 36 sveit­ar­fé­lög­um og róið, skíðað eða hjólað í sér­stök­um þrek­tækj­um 13.000 metra á hverj­um stað, einn metra fyr­ir hvert barn sem brotið er á, en ferðina fór hann til að styðja baráttu UNICEF á Íslandi gegn ofbeldi gagnvart börnum.

Þátt­taka Ein­ars í átak­inu hófst á Akra­nesi og lýkur við Laugardalshöll. Eftir að hafa lokið síðustu 13.000 metrunum þar mun hann fara inn í Laugardalshöllina og sækja hlaupanúmer sitt fyrir Reykjavíkurmaraþonið og ljúka þar með átakinu formlega með því að hlaupa heilt maraþon.

 „Það er búið að vera ótrúlegt að fylgjast með honum Einari. Ég veit satt best að segja ekki hvaðan hann fær þessa orku og að ætla svo að klára með því að hlaupa maraþon, þetta er frábær stuðningur fyrir málstaðinn,“ er haft eftir Bergsteini Jónssyni, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, í tilkynningu.

Í vor hóf UNICEF á Íslandi átak gegn ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi undir yfirskriftinni Stöðvum feluleikinn, en þá vakti UNICEF athygli á því að ofbeldi er ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Verða rúmlega 13 þúsund börn fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn hér á landi samkvæmt nýrri rannsókn um ofbeldi sem unnin var af Rannsóknamiðstöðinni Rannsóknir & greining og Stígamótum.

Hægt er að heita á Einar í Reykjavíkurmaraþoninu hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert