Hjó höfuðið af ketti með öxi

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. mbl.is/Gúna

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa án heimildar ruðst inn á heimili barnsmóður sinnar og tekið þar kött sem hann átti. Þaðan fór hann með köttinn í kjallara og hjó af honum höfuðið með öxi.

Fram kemur í ákæru að maðurinn hafi ekki leitað dýralæknis til að aflífa köttinn og ekki svipt köttinn meðvitund fyrir aflífun. Hann hafi ekki gætt að því að forðast að valda kettinum óþarfa þjáningum og hræðslu.

Maðurinn viðurkenndi brot sín fyrir dómi en hann hefur ekki áður sætt refsingum. 

Fram kemur í dómi að litið sé til þess að maðurinn játaði brot sín hreinskilningslega og lýsti yfir iðrun vegna háttseminnar. Auk þess hafi maðurinn leitað sér aðstoðar til að snúa lífi sínu til betri vegar.

Maðurinn er eins og áður sagði dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Auk þess er honum gert að greiða 120 þúsund króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella átta daga fangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert