Tók fram úr lögreglu á 122 km hraða

Ökumaður ók bifreið sinni á miklum hraða fram úr lögreglubifreið sem var í eftirlitsferð á Reykjanesbraut um helgina. Ökumaðurinn reyndist vera erlendur ferðamaður, en bifreið hennar mældist á 122 km hraða á klukkustund þar sem hámarkshraði er 90.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Þar segir jafnframt að blástur í áfengismæli hafi rennt stoðum undir grun lögregluþjóna um að viðkomandi hefði neitt áfengis. Var ökumaðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð.

Gaf upp nafn og kennitölu systur sinnar

Þá voru nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um fíkniefnaakstur. Tveir þeirra reyndust sviptir ökuréttindum ævilangt. Annar þeirra, kona á fertugsaldri, reyndi að villa á sér heimildir með því að gefa upp nafn og kennitölu annars einstaklings, en viðurkenndi á endanum að upplýsingarnar tilheyrðu systur hennar.

Þá voru afskipti höfð af ökumanni sem svaf ölvunarsvefni undir stýri í bifreið sinni. Í farþegasæti við hlið hans fundu lögreglumenn tveggja lítra gosflösku með landa, en lítið var eftir í henni. Viðkomandi var færður á lögreglustöð þar sem sýnatökur bentu til þess að hann hefði neytt kannabisefnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert