Uppgjör við málefnin í stað mannsins ári eftir Klaustursmálið

Bára Halldórsdóttir, listakona og aktívisti.
Bára Halldórsdóttir, listakona og aktívisti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er uppgjör við málefnin í staðinn fyrir að fara í manninn eins og gert var í mínu tilfelli. Nú er búið að ganga frá öllu sem varðar mig og nú er hægt að tala um málefnin sjálf,“ segir Bára Halldórsdóttir, listakona og aktívisti, um málþingið Klausturgate ári síðar, þar sem þeir sem var talað um fá að tala. Almenningsálitið. Málþingið fer fram í húsi Íslenskrar erfðagreiningar í dag klukkan 16.

Bára vísar til málferla svokallaðra Klaustursþingmanna á hendur sér. Á málþinginu verður meðal annars farið yfir hvað hefur breyst og hvað ekki eftir að Klaustursmálið kom upp. Á þessum degi fyrir ári síðan var Bára vitni að samtali sex Alþingismanna á barnum Klaustri sem hún tók upp. Ummæli þeirra birtust í fjölmiðlum eftir það.

Skemmst er frá því að segja að Bára var dregin fyrir dómstóla og henni meðal annars gert að eyða upptökum sínum að skipan Persónuverndar. Siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að tveir af þeim sex þingmönnum hefðu brotið gegn siðareglum Alþingis með ummælum sínum. Allir þingmennirnir sex eiga sæti á þingi. 

Brýnt að læra af málinu

Bára segir mikilvægt að rifja upp hvernig staðan í samfélaginu og á Alþingi sé í dag ári eftir umrætt mál. „Markmiðið er að skoða hvernig fólki líður í alvörunni. Við ætlum að fara yfir lausnir, hvað þarf að styrkja og hverju þarf að breyta o.s.frv.,“ segir Bára. Hún segir brýnt að ef sambærileg mál komi upp aftur að læra megi af viðbrögðum við þessu máli.  

Þegar Bára vann að því að undirbúa málþingið, að fá fólk til að koma og halda ræður og fleira þess háttar kom það henni á óvart hversu mikill ótti er enn við lýði. „Það er geipilegur ótti við að rugla bátnum á Alþingi. Fólk var hrætt við að þetta hefði áhrif á samstarf, hefði vond áhrif á ímynd sína og þar fram eftir götunum,“ segir Bára og vísar til Alþingismanna og þeirra sem starfa við þingið.  

Bára mun lesa upp forvitnileg viðbrögð einstaklinga á þingi eftir Klaustursmálið. 

„Það er ógnvekjandi að á þingi sé fólk sem er svona hrætt við eitthvað. Spurning hvað,“ segir Bára. Í þessu samhengi vísar hún til Samherja-málsins um meintar mútugreiðslur sjávarútvegsfyrirtækisins og spyr hvort spillingin nái inn á þing í tengslum við það mál. 

Hún hvetur fólk til að mæta og tjá sig um málefnið og segir ekki síst mikilvægt að raddir þeirra sem ekki voru í miðri hringiðunni fái að heyrast.  

Þeir sem vilja tjá sig um málefnið geta gert slíkt í texta merktum með þessum hashtögum: 

#Klausturgate #KlausturgateRevisited #CitizenB #notinmyparlament #midflokksmalid eða sent póst á Klaustur2019@gmail.com

Einnig verður undirskriftarlisti þar sem krafist verður betra umhverfis fyrir þingstarfsmenn. Sjá nánar hér: https://listar.island.is/Stydjum/52 

 Nánari upplýsingar eru hér: www.citizenb.org/klausturgate/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert