Dæmdur fyrir að ráðast á öryggisvörð í banka

mbl.is/Þorsteinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á öryggisvörð í Landsbankanum við Austurstræti fyrir tveimur árum. Maðurinn er jafnframt dæmdur til að greiða öryggisverðinum hálfa milljón króna í miskabætur og 800.000 kr. í málskostnað.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði manninn í maí á þessu ári fyrir líkamsárás með því að hafa 6. september 2017, í anddyri húsnæðis Landsbankans við Austurstræti í Reykjavík, veist með ofbeldi að manninum sem sinnti þar störfum sínum sem öryggisvörður. Hann kom aftan að manninum, tók hann kverkataki og þrengdi að framanverðum hálsi hans og öndunarvegi á meðan hann dró manninn út úr anddyri Landsbankans að stigapalli þar fyrir utan þar sem hann kastaði honum niður svo hann féll niður eitt þrep í stiganum. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem var kveðinn upp í gær, að maðurinn hafi komið með föður sínum í bankann með myndavél og farsíma og tekið upp myndskeið.

Vildu ræða við bankastjórann

Meðal gagna málsins er myndupptaka með hljóði sem maðurinn lagði fram, ásamt skriflegu endurriti af hljóðupptöku. Á upptökunni sést maðurinn standa fyrir utan inngang Landsbankans í Austurstræti. Á upptökunni horfir hann beint á upptökutækið og segir: „Jæja, ég er fyrir utan Landsbankann. Ég ætla að panta tíma hjá lögfræðingi bankans og bankastjóra.“

Gengur hann síðan upp tröppur og inn í bankann og virðist vera að handleika tæki á meðan. Myndatökumaður fylgir á eftir. Inni í anddyrinu, áður en gengið er inn í aðalsal bankans, er merki hægra megin, límt á gler í millihurð, um að myndatökur séu bannaðar.

„Það er bannað að mynda hér inni“

Maðurinn sést ganga að afgreiðsluborði þar sem öryggisvörðurinn situr og er hann klæddur í svört einkennisföt með merki Securitas.  Öryggisvörðurinn segir við myndatökumanninn að það sé bannað að mynda inni í bankanum. Ákærði segir að þeir eigi pantaðan tíma hjá bankastjóranum. „Já, það breytir engu, það er bannað að mynda hér inni,“ segir öryggisvörðurinn. Mennirnir sjást svo ganga í átt að anddyrinu eins og þeir séu á útleið. Myndupptakan rofnar skömmu síðar þegar öryggisvörðurinn sést taka myndbandsupptökutækið. 

Landsbankinn við Austurstræti.
Landsbankinn við Austurstræti. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Einnig er vísað til upptaka úr öryggismyndavélakerfi bankans. Í einni þeirra sést hvar maðurinn kemur aftan að öryggisverðinum og grípur um hægri öxl hans og vinstri upphandlegginn á honum. Því næst ýti hann manninum. Öryggisvörðurinn sést reyna að koma í veg fyrir að maðurinn nái að ýta honum út úr anddyrinu og þá sést hann taka um háls öryggisvarðarins og í framhaldinu snúa hann niður. 

Þá sést á upptöku hvernig maðurinn dregur öryggisvörðinn út á dyrapallinn og ýtir honum þannig að hann fellur niður tröppurnar. Síðan sjást feðgarnir ganga á brott. 

Sagði að öryggisvörðurinn hefði hrifsað símann af þeim

Maðurinn sem er ákærður í málinu neitaði sök. Hann sagði að faðir hans hefði verið með honum og hefði tilefnið, eins og áður segir, verið að reyna að fá viðtal við bankastjórann. Hann hélt því fram að öryggisvörðurinn hefði hrifsað farsíma af föður hans. Hann hefði þá að minnsta kosti tvisvar beðið öryggisvörðinn um að skila farsímanum en án árangurs. Hann hélt því enn fremur fram að hann hefði horft á öryggisvörðinn vera að eiga við tækið eða gögn í því. 

Maðurinn tók fram, að honum þætti mjög leiðinlegt hvernig atvik hefðu þróast með þeim hætti sem reyndin varð. Hann hefði verið að aðstoða föður sinn vegna lögskipta hans við bankann. Þeim hefði gengið illa að eiga samskipti við bankann og ræða við stjórnendur. 

Óþarflega harkalegt

Fram kemur í dómnum, að valdbeiting mannsins, sem hefur ekki áður gerst brotlegur við refsilög, gegn öryggisverðinum hafi verið óþarflega harkaleg, ekki í nægjanlegu samhengi við tilefni og þá hafi ekki verið sýnt fram á að neyðarvörn geti átt við um háttsemi ákærða. Þá segir að verndarviðleitni mannsins virðist hafa verið undirrót eða aflvaki verknaðar þegar hann leitaðist við að endurheimta eign sína frá öryggisverðinum, og var litið til þess við ákvörðun refsingar. 

Þá kemur fram, að meðferð málsins hafi dregist hjá lögreglu og ákæruvaldi af ástæðum sem eru manninum óviðkomandi og var einnig litið til þess við ákvörðun refsingar.

Dómarinn tekur fram, að framganga öryggisvarðarins í starfi gagnvart manninum hafi ekki að öllu leyti verið í samræmi við það sem til var ætlast, þ.e. hvernig hann hrifsaði símann af manninum. Bent er á að samkvæmt framburði öryggisvarðarins fyrir dómi hafi ástæðan fyrir þessu einnig verið sú að hann hefði ekki kært sig um að vera sjálfur í myndupptöku og jafnvel eiga það yfir höfði sér að myndefni af honum kynni að fara í dreifingu á samfélagsmiðlum. Svo virðist sem réttarvarsla hans í þágu bankans hafi runnið saman við persónulega afstöðu hans um að hann þyrfti ekki að þola upptökuna. 

Gætti þess ekki nægjanlega að fylgja almennum starfsreglum öryggisvarðar

„Þótt myndataka sem þessi sé hvimleið og hafi það yfirbragð að vera áreitni verður hún almennt ekki skilgreind sem brot á lögum nema meira komi til. Þá verður ekki séð að hún hafi verið til þess fallin að skapa óróa eða hættu, eins og atvikum var háttað. Að þessu virtu verður ekki séð að sérstök þörf hafi verið á því að taka símann með valdi af D í stað þess að fylgja honum og ákærða út eða kalla til lögreglu. Er það því mat dómsins að brotaþoli hafi í umræddum samskiptum við ákærða og D, frá þeim tímapunkti þegar hann tók símann af hinum síðarnefnda og gekk með tækið áleiðis út, eigi gætt þess nægjanlega að fylgja almennum starfsreglum öryggisvarðar í bankanum um hvernig eigi að bregðast við atvikum sem þessum og verður ráðið að augnabliks ákvörðun brotaþola hafi leitt til fyrrgreinds fráviks,“ segir í dómnum. 

Dómarinn segir enn fremur að refsing ákærða þyki hæfilega ákveðin tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert