Hvert barn fái 18 mánaða rétt til orlofs

Stjórn Geðverndarfélags Íslands hefur sent frá sér umsögn vegna laga …
Stjórn Geðverndarfélags Íslands hefur sent frá sér umsögn vegna laga um fæðingarorlof. Getty Images/iStockphoto

Stjórn Geðverndarfélags Íslands leggur til að hvert barn fái átján mánaða sjálfstæðan rétt til orlofs með foreldri sínu eða foreldrum. Þetta kemur fram í umsögn hennar við frumvarp félags- og barnamálaráðherra um fæðingarorlof.

Stjórnin leggur áherslu á að þarfir barnsins séu ávallt í fyrsta sæti og að þarfir foreldranna þurfi að laga að þörfum barnsins en ekki öfugt. Meginmarkmiðið eigi að vera að fæðingarorlofið skuli tryggja barni samvistir við foreldra.

Regla brýtur gegn barninu

„Sú regla að tryggja foreldrum sjálfstæðan rétt, fimm mánuði hvoru, og að hann sé ekki framseljanlegur, brýtur gegn bæði barninu og markmiðsgrein laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. Þetta er augljóst í tilfelli einstæða foreldra, þar sem annað þeirra getur af einhverjum ástæðum ekki verið samvistum við barnið (ekki er vitað hver faðirinn er, foreldri er alvarlega veikt, er óhæft eða vill ekki umgangast barnið),“ segir í greinargerðinni.

„Börn sem þannig stendur á um fá þá eftir þessa breytingu 5 + 2 mánuði, 7 mánuði samtals, meðan önnur börn fá 12 mánuði. Barn einstæðs foreldris í dæminu hér á undan ætti ekki að fá minni tíma með foreldri sínu.“

Feður nýti sér ekki réttinn 

Einnig kemur fram að þrátt fyrir að meginhugmynd laganna sé að stuðla að þátttöku feðra í umönnun barna sinna fyrstu mánuðina eigi börnin ekki að gjalda þess að feður nýti sér ekki þennan rétt. Þess í stað eigi orlofstíminn að vera merktur börnunum. „Það er síðan annað verkefni að auka jafnréttisvitund í samfélaginu og stuðla að því að feður langi til að vera 5 mánuði heima með nýju barni, telji það eftirsóknarvert og hluta af sjálfsmynd sinni.“

Sömuleiðis bendir stjórnin á í umsögn sinni að fjölmargar rannsóknir styðji mikilvægi góðrar umönnunar foreldra við barn og heilbrigðrar tengslamyndunar milli barns og foreldris eða foreldra fyrstu tvö árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert