Óvissustigi líklega aflétt í dag

Flóð féll í Súðavíkurhlíð og fór yfir veginn.
Flóð féll í Súðavíkurhlíð og fór yfir veginn. mbl.is/Sigurður Bogi

Óvissustig er enn í gildi vegna snjófljóðahættu á Mið-Norðurlandi, en það tók gildi klukkan 8 á þriðjudag, 10. desember. Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands má þó búast við því að óvissustigi verði aflétt síðar í dag.

„Það er enn þá óvissustig. Það verða einhver él áfram í dag en að öllum líkindum fer að draga úr þessu núna. Við erum enn að fá fréttir,“ segir Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt.

Á Vestfjörðum hafa a.m.k. fjögur flóð fallið yfir vegi, tvö í Hestfirði, eitt í Súðavíkurhlíð og eitt í Súgandafirði. Þá hefur eitt flóð fallið yfir veg í Langadal. 

Þá er mikill snjór í Fnjóskadal, sem og í fjöllunum fyrir austan. „Það sést lítið til fjalla enn þá þar og vegir enn þá lokaðir. Það á eftir að koma meira í ljós þegar menn geta farið um.“

Þrátt fyrir að óvissustigi verði líklega aflétt síðar í dag er enn talsveð hætta á snjóflóðum vegna élja, auk þess sem mikið er verið að fara til fjalla að laga háspennulínur sem skemmdust í óveðrinu.

Ofanflóðavefur Veðurstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert