Umráðamenn verndi dýr gegn hættu

Björgunarsveitarmenn hafa meðal annars bjargað kindum eftir ofsaveðrið sem gekk …
Björgunarsveitarmenn hafa meðal annars bjargað kindum eftir ofsaveðrið sem gekk yfir landið í vikunni. Ljósmynd/Björgunarsveitin Grettir

Björgunarsveitarmenn hafa grafið upp hross og kindur sem urðu úti í óveðrinu sem gekk yfir landið. Dýralæknir á Norðurlandi segir að að minnsta kosti sex hross hafi drepist en dýralæknir hjá Matvælastofnun segir að þaðan hafi verið send tilkynning eftir að veðrið gekk yfir þar sem fólki var bent á að huga að dýrunum.

Þóra Jónasdóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, segir að ekki hafi verið send út nein ábending frá stofnuninni áður en veður gekk yfir landið.

„Það hefði svo sannarlega verið gott ef við hefðum gert það og almennt gerum við það. Þá sendum við út tilkynningar til að minna fólk á, til að mynda ef það eru miklir þurrkar og um áramót og eins ef við eigum von á vondu veðri að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir og huga að dýrunum,“ segir Þóra við mbl.is.

Hún segir að það sé í skýrt í lögum að umráðamönnum dýra beri að vernda þau gegn hættum, slysum og sjúkdómum. Í reglugerðum um hross standi að skylt sé að hafa vikulegt eftirlit með hrossum sem ganga úti á beit.

„Aukið eftirlit skal hafa ef veður eða aðrar aðstæður krefjast þess. Lagaramminn er frekar skýr hvað varðar ábyrgð umráðamanna dýra,“ segir Þóra.

Hún segir að líklega hefði það verið til bóta ef Matvælastofnun hefði sent tilkynningu þar sem fólki væri bent á að passa vel upp á dýr sín. Hins vegar hafi ítrekað verið fjallað um hvers lags veðurhamur var á leiðinni og það hafi ekki átt að koma neinum á óvart.

„Við vonum að umráðamenn dýra séu almennt ábyrgir og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja sem öruggastar aðstæður fyrir dýrin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert