Viftur héngu eins og jólaskraut

Fjölskyldan á Búrfelli. Guðrún ásamt sonum sínum tveimur og eiginmanni, …
Fjölskyldan á Búrfelli. Guðrún ásamt sonum sínum tveimur og eiginmanni, Gunnari Þór Þórissyni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta voru ekkert vindhviður heldur komu höggbylgjur. Maður fann þrýsting í eyrum í verstu hviðum hérna inni,“ segir Guðrún Marinósdóttir, bóndi á Búrfelli í Svarfaðardal.

Ábúendur þar hafa aldrei upplifað annan eins veðurofsa og þann sem skók landið í vikunni. Bærinn er ekki enn kominn með eðlilega tengingu við rafmagn og er sama staðan upp á teningnum hjá öðrum bæjum í grenndinni. Þó fékk fjölskyldan á Búrfelli 240.000 króna rafmagnsreikning í gær.

Mikið gekk á í óveðrinu en hurðin á hlöðu bæjarins sprakk inn í hlöðuna og tókst með naumindum að loka aftur. „Maður hélt að þetta myndi allt saman fara þegar hlaðan stóð opin og blés inn,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

Aðfaranótt miðvikudags sprakk hurðin á fjósinu í loft upp og þyrlaðist inn í fjós. 

„Í soginu sem því fylgdi soguðuðst vifturnar upp í stropana úr festingunum og héngu eins og jólaskraut á rafmagnsköplunum,“ segja ábúendur á Búrfelli í færslu á facebooksíðu sinni. 

Í óveðrinu brotnuðu rafmagnsstaurar og línur duttu út.
Í óveðrinu brotnuðu rafmagnsstaurar og línur duttu út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framleiða rafmagn með 300 lítrum af olíu daglega

Fleiri skemmdir urðu á bænum en hlaðan fylltist af snjó, grindverkið í kringum húsið og á pallinum er orðið ansi fátæklegt og þakið af geymsluskúr við sumarhúsið er horfið og strompur yfir viftu á fjárhúsinu stórskemmdur.

Símasamband kom svo ekki inn fyrr en seint í gærkvöldi. 

„Það var eiginlega það versta að vita aldrei neitt. Við vorum með langbylgju og hlustuðum á fréttir en þær voru allar svo stuttar og maður vissi aldrei neitt hversu lengi þetta myndi vara fyrr en björgunarsveitin keyrði hérna á bæi á miðvikudagskvöldið, þá fékk maður fyrstu fréttir af því sem væri í gangi,“ segir Guðrún. 

Fjölskyldan hitar nú húsið með riasavaxinni ljósavél sem drekkur 300 lítra af olíu á sólarhring enda venjuleg rafmagnstenging fjarri góðu gamni. Á Búrfelli er kúabú og þurfti bæði að handmjólka og nota neyðarmjaltavél. Öll mjólkin fór þó í súginn því ekki var hægt að kæla hana. 

Búrfell á góðum degi, vissulega ekki eins og það var …
Búrfell á góðum degi, vissulega ekki eins og það var í veðurofsa vikunnar. Ljósmynd/Aðsend

240.000 króna rafmagnsreikningur í rafmagnsleysi

Að sögn Guðrúnar mun taka sinn tíma að koma öllu aftur í fyrra horf. 

„Við erum enn að vinna í því að moka snjó úr hlöðu og fá fjósið til að virka eðlilega. Það fer að minnka í kúnum og þær hætta bara að mæta í róbotinn ef ekkert er í þeim svo maður þarf svolítið að fara að sækja en það heilsast ágætlega úti og það er allt í lagi þannig.“

Til þess að kóróna allt saman fékk fjölskyldan á Búrfelli 240.000 króna rafmagnsreikning frá Rarik og Orkusölunni fyrir desembermánuð. „Það má svo segja að það sé kaldhæðni örlöganna,“ segja ábúendur á facebooksíðu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert