Kólnandi veður í vændum

Kuldatíð er framundan.
Kuldatíð er framundan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir kólnandi veður á næstu dögum og ráðleggur Óli Þór Árnason veðurfræðingur því fólki sem hyggur á ferðalög innanlands að fylgjast vel með veðurspám. Í dag bætir í vind og úrkomu en áfram verður hlýtt á landinu. Þegar líður á vikuna tekur þó að kólna og er útlit fyrir norðanáttir með éljum og talsverðu frosti.

„Það mun kólna þegar líður á þriðjudaginn og á miðvikudag verður hitinn kominn víðast hvar niður undir frostmark,“ segir Óli.

Margir nýttu helgina og ferðuðust út á land, til þess að stytta sér stundir í samkomubanni. Ef þess lags ferðalög eru í kortunum um næstu helgi er eins gott að hafa hlýjan fatnað og fylgjast með spám að sögn Óla Þórs:

„Fyrir næstu helgi verður ekkert sérlega spennandi að fara norður en það verður ágætlega bjart sunnan og vestan til á landinu en vel kalt, þannig að það er eins gott að fólk hafi í hlý hús að venda og hlýjan fatnað.“

Hann segir dægursveifluna vera orðna töluvert mikla nú þegar sólin er hærra á lofti og því kaldara á nóttunni. Spáin gefi til kynna nú að mikil lægð verði á sunnudaginn um næstu helgi en fylgjast verði vel með spám sem geta verið ónákvæmar þegar horft er lengra en fjóra daga fram í tímann.

Í dag verður suðvestanátt 5-13 m/s, skýjað og súld en um 8-15 m/s á morgun og hiti á bilinu 1 til 7 stig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert