Mikill eldur kviknaði á svölum við Skúlagötu

Um hressilegan eld var að ræða, að sögn varðstjóra.
Um hressilegan eld var að ræða, að sögn varðstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Eldur kviknaði í grilli á svölum íbúðar á þriðju hæð við Skúlagötu í Reykjavík á áttunda tímanum. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var um „hressilegan“ eld að ræða sem hafði læst sig í timburklæðningu hússins.

Slökkviliðið hafði fengið tilkynningar frá nágrönnum mannsins, sem reyndi fyrst um sinn að slökkva eldinn sjálfur en þegar hann sá að hann réð ekki við það hringdi hann sjálfur og óskaði eftir aðstoð slökkviliðs.

Mannskapur frá öllum stöðvum var sendur á staðinn, en þegar lið þriggja stöðva var komið á staðinn og búið að ná tökum á eldinum voru aðrir sendir til baka.

Búið er að slökkva eldinn og mun störfum slökkviliðsins ljúka innan skamms. Talsverðar skemmdir urðu á húsinu og hefur starfsfólk tryggingafélags verið kallað til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert