Stutt í slátt í Landeyjum

Allt er vænt sem vel er grænt, segja margir.
Allt er vænt sem vel er grænt, segja margir. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Útlitið er gott og ég gæti trúað að sláttur hér hefjist viku af júní,“ segir Hlynur Snær Theódórsson, bóndi á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum.

Algengt er að bændur í austanverðri Rangárvallasýslu séu fyrstir á landinu til að bregða ljá í gras í sumarbyrjun ár hvert. Kemur þar til að landið liggur lágt, snýr í hásuður og fjöllin að baki eru skjól í norðanátt.

„Vorið var ágætt og klaki fór snemma úr jörðu. Um helgina fór svo að rigna, í dag er tæplega tíu stiga hiti og þá þýtur allur gróður áfram. Það er nánast ævintýralegt að fylgjast með þessu og eftir svo sem tíu daga verður komin ágæt slægja,“ segir Hlynur Snær.

Þegar spjallað er við bændur undir Eyjafjöllum er því svarað til að nokkrir dagar séu enn í að sláttur geti hafist. „Einstaka stykki og tún hér í nágrenni við mig hér undir fjöllunum líta mjög vel út. Þar er komið gott gras. Rigningin sem kom um síðustu helgi gerði alveg heilmikið fyrir okkur og var góð gróðrarskúr,“ segir Sigurður Grétar Ottósson, bóndi á Ásólfsskála undir Vestur-Eyjafjöllum. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert