Slapp með skrekkinn

Hilmar Eyjólfsson.
Hilmar Eyjólfsson. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Aurflóðin á Seyðisfirði skömmu fyrir nýliðin jól ollu miklu tjóni og sárin gróa seint eða aldrei. „Ég fæ alltaf sting í hjartað þegar ég kem að þar sem Dagsbrún, húsið okkar við Hafnargötu, var,“ segir Hilmar Eyjólfsson, sem missti nær allt sitt í stóra flóðinu.

Hilmar fæddist og ólst upp á Laugarbrekku við Suðurlandsbraut í Reykjavík. Hann vann í vélsmiðjum, Héðni og lengur í Tækni, og þau Erna Halldórsdóttir, eiginkona hans sem lést 2018, höfðu það fyrir sið að fara í vinnu út á land á sumrin. „Við kölluðum það að fara í sumarfrí og eitt sinn réðum við okkur hérna á Seyðisfirði í tvo mánuði en teygst hefur úr dvölinni.“

Frá Seyðisfirði eftir skriður sem féllu þar í desember.
Frá Seyðisfirði eftir skriður sem féllu þar í desember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þau byrjuðu á því að vinna í bræðslunni en fljótlega fór Hilmar að vinna í Vélsmiðju Seyðisfjarðar og var þar lengst af starfsævinnar, en hann er 87 ára. „Það var góður vinnustaður og við smullum inn í lífið hérna enda er Seyðisfjörður draumastaður.“

Hrekkur og skrekkur

Á síldarárunum fyrir 1970 var iðandi líf á Seyðisfirði en grúturinn var mikill og Hilmar lét sig málið varða með góðum árangri. „Þegar bræðslurnar voru hérna var mikil lýsismengun á landi og í firðinum,“ rifjar hann upp. „Grúturinn hafði ekki góð áhrif, hvorki á fjörðinn né lífríkið. Þegar lýsið fór í fiðrið á kollunum var ekki að spyrja að leikslokum.“ Hann beitti sér fyrir því að verksmiðjurnar og skipin hættu að losa sig við úrganginn í sjóinn. „Ég hringdi í Náttúruvernd fyrir sunnan og bað um að sendir yrðu menn til að kíkja á þetta,“ upplýsir hann. Lét það fylgja með að ekki borgaði sig að láta bæjarstjórnarmenn vita. „Allt í einu birtust náttúruverndarmennirnir öllum að óvörum og ég fékk skömm í hattinn hjá bæjarstjórninni fyrir að hafa ekki látið hana vita. En þetta hafði tilætluð áhrif; gildrum fyrir úrganginn var komið fyrir á viðeigandi stöðum og bátunum var bannað að dæla í sjóinn við bryggjurnar.“

Hjónin bjuggu í Dagsbrún í nær hálfa öld og eftir að þau fluttu í íbúð fyrir aldraða í eigu kaupstaðarins hefur Hilmar haft það fyrir daglegan sið að athuga hvort ekki sé allt í lagi í gamla húsinu. Skömmu áður en stóra flóðið reif það með sér var hann á leiðinni þangað ásamt Haraldi Má Sigurðssyni, félaga sínum og nágranna. „Við vorum á okkar hefðbundna eftirmiðdagsrúnti, en vorum stoppaðir inni við gamla apótekið og sagt að við mættum ekki fara út eftir. Á meðan við ræddum málin heyrðum við þessar rosalegu drunur. Það var flóðið sem tók Dagsbrún og allt sem í húsinu var og ef við hefðum haldið áfram óhindrað er líklegt að ég hefði verið þar inni og Halli Már setið í bílnum fyrir neðan. Þá hefðum við ekki verið til frásagnar.“

Skömmu fyrir flóðin hafði barnabarn Hilmars og Ernu flutt úr húsinu. „Sem betur fer keyptu afastrákurinn og konan hans blokkaríbúð sem þau voru komin í ásamt tæplega eins árs dótturinni og segja má að það sé mér að þakka vegna þess að ég samþykkti ekki breytingar sem hann vildi gera á Dagsbrún.“ Missirinn hafi samt verið mikill, þótt eignirnar hafi verið tryggðar. „Það er svo margt sem ekki verður metið til fjár og bætt, til dæmis gamlar ljósmyndir og fleira. Við erum vön skriðum en þessi var mikið áfall.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert